Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Borgin bíður enn svars við kröfu um jöfnunarframlag

08.12.2020 - 15:36
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Reykjavíkurborg bíður enn endanlegs svars íslenska ríkisins við kröfu um greiðslu á 8,7 milljörðum króna úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Borgin hafði gefið svarfrest út síðasta föstudag, en að sögn aðstoðarmanns borgarstjóra bárust þann sama dag upplýsingar frá embætti ríkislögmanns um að svar væri í vinnslu og að þess væri að vænta fyrir lok þeirrar viku sem nú líður.

Krafa borgarinnar byggir á því að hún greiði 11 milljarða í sjóðinn árlega og fái úr honum um átta milljarða vegna þjónustu við fatlað fólk, en fái hins vegar ein sveitarfélaga ekkert fyrir þjónustu við nemendur af erlendum uppruna í skólum. Önnur sveitarfélög fái 130 þúsund krónur hvert fyrir þá þjónustu. Borgarstjóri hefur sagt þessa reglu ósanngjarna. Krafan nær til framlaga úr sjóðnum á árunum 2015-2019.

Sigurður Ingi Jóhannsson sveitarstjórnarráðherra hefur andmælt kröfu borgarinnar og sagt að ekki komi til greina að fallast á hana, enda beinist hún gegn öðrum sveitarfélögum. Ýmsar sveitarstjórnir hafa síðan bókað á fundum sínum mótmæli við kröfugerð borgarinnar.