Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

330 fjölskyldur í síðustu matarúthlutun

08.12.2020 - 17:02
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Síðan kóronuveirufaraldurinn skall á hefur aðsókn í matarúthlutun hjá Fjölskylduhjálp stóraukist og langar raðir myndast við úthlutunarstöðvar. Matarúthlutun í Reykjanesbæ hefur verið flutt í stærra húsnæði og nú er unnið að því að rafvæða úthlutunarkerfið til að koma í veg fyrir raðir, eins og hefur verið gert í hinni úthlutunarstöð samtakanna í Iðufelli í Reykjavík.

Óþarfa hræðsla við að maturinn klárist

Alls komu 330 fjölskyldur á síðustu matarúthlutun Fjölskylduhjálpar í Reykjanesbæ sem fór fram í síðustu viku. Anna Valdís Jónsdóttir, varaformaður Fjölskylduhjálpar, segir í samtali við fréttastofu að hún búist við að fjöldinn verði jafnvel tvöfaldur í næstu viku, enda sé alltaf meiri aðsókn rétt fyrir jól.

Fólk mæti gjarnan einum og hálfum klukkutíma áður en matarúthlutunin hefst. Því myndist langar raðir fyrir utan. „Við höfum margoft ítrekað fyrir fólki að það þurfi ekki að koma um leið og við byrjum að úthluta, og alls ekki áður, við viljum ekki að allir komi á sama tíma og að fólk þurfi að bíða í röð. Það er alltaf nóg til af mat en fólk er bara svo hrætt um að fá ekki mat. Það er þessi mikla hræðsla sem orsakar þessar raðir. Þetta er fátækt fólk,“ segir hún. 

Nú er unnið að tölvukerfi sem úthlutar fjölskyldum ákveðinn tíma til að sækja mat. Anna Valdís segir að samtökin hafi vonast til þess að kerfið yrði tilbúið fyrir jól en að það verði sennilega ekki tilbúið fyrr en í byrjun næsta árs. 

Flutt í stærra húsnæði

Matarúthlutun í Reykjanesbæ var nýverið flutt tímabundið af Baldursgötu 14 yfir í Grófina 2. „Mér ofbauð síðasta matarúthlutun á Baldursgötu, fjöldinn var svo svakalegur og húsnæðið lítið. Svo ég hafði samband við bæjarstjórann sem kom og fylgdist með. Hann bauð okkur svo tímabundið annað húsnæði í Grófinni. Við verðum þar til 10. janúar,“ segir Anna Valdís. 

„Þetta er miklu betra, hér er fólk ekki jafnberskjaldað og á Baldursgötu því það eiga miklu færri leið hér hjá. Fólki finnst örugglega miklu muna um þetta,“ bætir hún við. 

Miklu fleiri af erlendum uppruna en áður

Um það bil fimmtungur íbúa á Suðurnesjum er atvinnulaus og mikill fjöldi þeirra sem hafa misst vinnuna á árinu er af erlendum uppruna. „Margir sem hingað koma núna eftir að hafa misst vinnuna hafa ekkert bakland hér á Íslandi. Jafnvel fölskyldur þar sem báðir foreldrar hafa misst vinnuna og eiga engan að. Þetta er rosalega erfitt,“ segir hún. „En í okkar hópum er mikið eldra fólk og öryrkjar, og svo þessi nýi hópur af þeim sem hafa nýverið misst vinnuna,“ segir hún. Fólk beri sig misvel og þeir sem eru veikir gangi alltaf fyrir.