Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Vindmyllubræður ákærðir fyrir fjársvik vegna Zúista

07.12.2020 - 13:00
Mynd með færslu
Ágúst Arnar Ágústsson og Einar Ágústsson gægist fyrir hurð. Mynd: kastljós
Bræðurnir Ágúst Arnar Ágústsson og Einar Ágústsson hafa verið ákærðir fyrir fjársvik í tengslum við rekstur Zúista-trúfélagsins. Þeir eru sagðir hafa styrkt og hagnýtt sér þá röngu hugmynd starfsmanna íslenskra stjórnvalda að trúfélagið uppfyllti skilyrði fyrir skráningu trúfélags. Á þeim grunni hafi félagið fengið tæpar 85 milljónir frá október 2017 til janúar 2019. Ákæra héraðssaksóknara er ítarleg og löng þar sem meint brot bræðranna eru rakin.

Málið verður þingfest þann 14. desember. Fréttastofa óskaði eftir henni fyrir helgi en þá var birtingafrestur ekki liðinn. Ákæran var síðan birt þeim bræðrum síðdegis á föstudag og því var hægt að fá hana afhenta í dag.

Engin trúariðkun eða starfsemi í félaginu

Í ákærunni segir saksóknari að blekkingar þeirra bræðra hafi meðal annars lotið að því að innan trúfélagsins Zuism væri lögð stund á átrúnað eða trú í virki og stöðugri starfsemi. Trúfélagið hefði náð fótfestu hér á landi og að í því væri kjarni félagsmanna sem tæki þátt í starfsemi þess og styddi lífsgildi þess í samræmi við kenningar trúfélagsins. 

Sannleikurinn hafi verið sá að engin eiginleg trúariðkun eða tengd starfsemi hafi farið fram. Engu að síður hafi bræðurnir blekkt starfsmenn sýslumannsins á Norðurlandi og Fjársýslu ríkisins um að trúfélagið uppfyllti skilyrði fyrir skráningu sem trúfélag og ætti því rétt á sóknargjöldum.  Þetta hafi meðal annars verið gert með röngum og villandi gögnum sem send voru sýslumanninum, Þjóðskrá Íslands og fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra. 

Hvað varð þá um peningana?

Þá hafi röngum og villandi upplýsingum verið dreift á heimasíðu félagsins sem saksóknari telur að hafi verið til þess fallnar að styðja og viðhalda opinberlega þessum hugmyndum gagnvart almenningi.

Í ákæru saksóknara er einnig gerð tilraun til að varpa ljósi á hvað varð um þessa fjármuni sem bræðurnir fengu í sóknargjöld. Rúmar 46 milljónir voru fluttar yfir reikning félagsins EAF hf sem er sagt vera í eigu Skajaquoda. Raunverulegur eigandi þess félags er talinn vera Einar.  Bræðurnir eru sagðir hafa gert ráðstafanir til að láta líta þannig út að EAF hf hafi verið í lánaviðskiptum við trúfélagið og að trúfélagið hafi á endanum keypt EAF af Skajaquoda. 

Af þessum 46 milljónum var 40 milljónum umbreytt í dollara og þeir síðan fluttir í fimm símgreiðslum til útlanda.  Peningarnir voru meðal annars lagðir inn á reikning hjá verðbréfafyrirtæki í Bretlandi og bankareikning Einars hjá bandaríska bankanum JP Morgan Chase. 

Keyptu í hlutafjárútboði Heimavalla og Arion banka

Þá er félagið EAF hf einnig sagt hafa nýtt fjármuni sem millifærðir voru af reikningi Zuista til að kaupa í einingar í verðbréfasjóði hjá Íslandsbanka fyrir samtals 19,5 milljónir og selja þær aftur fyrir svipaða fjárhæð Félagið keypti einnig hlutabréf í hlutabréfaútboðum Heimavalla og Arion banka. Greiðslur frá félaginu runnu einnig til bræðranna sjálfra og félaga í eigu þeirra.

Upphæðin er sögð hafa verið notuð í fjármálgerninga hjá verðbréfafyrirtæki skráðu í Bretlandi og eitthvað var millifært á bankareikning Einars hjá JP Morgan Chase í New York og svona mætti lengi telja. Þá voru tæpar tuttugu milljónir notaðar til kaupa einingar í verðbréfasjóði hjá Íslandsbanka sem síðan voru seldar aftur fyrir svipaða fjárhæð og til að kaupa hlutabréf í hlutafjárútboðum Heimavalla og Arion banka.

Borguðu lögfræðikostnað og almannatenglum

Upphæðin sem ekki var flutt yfir á reikning EAF hf heldur geymd á bankareikningi trúfélagsins eru bræðurnir sagðir hafa nýtt, flutt og umbreytt með fjölmörgum millifærslum af reikningnum og einni reiðufjárúttekt upp á tvær milljónir króna. Þannig var 6,6 milljónum varið í endurgreiðslur á trúfélagsgjöldum, 9,7 milljónum í lögfræðikostnað, 2,4 milljónum til styrktar góðs málefnis og 2, 3 milljónum í ýmsan annan kostnað, meðal annars til almannatengla.

Saksóknari telur jafnframt að bræðurnir hafi notað fjármunina á reikningi trúfélagsins með debetkortum sín. Þeir hafi keypt ýmsar vörur og þjónustu, svo sem hjá veitingahúsum, áfengisverslunum, eldsneytisstöðvum, matvöruverslunum og fjarskiptafyrirtækjum. Fram kemur í ákærunni að innstæða á bankareikningi Zuism trúfélags hafi numið 1,2 milljónum króna í maí á síðasta ári. Innstæða á reikningi félagsins EAF var 4 krónur.