Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Norski DNB-bankinn fær mögulega metsekt

07.12.2020 - 09:38
Erlent · Bankar · dnb
epa03030923 An exterior view of Norwegian DNB branch in Vilnius, Lithuania, 06 December 2011.  EPA/VALDA KALNINA
 Mynd: EPA - AFI
Norska fjármálaeftirlitið skoðar nú að leggja sekt upp á 400 milljónir norskar krónur, um 5,7 milljarða íslenskra króna, á norska DNB bankann fyrir að hafa ekki fylgt regluverki um varnir gegn peningaþvætti.

Fjármálaeftirlitið gerði athugun á vörnum bankans gegn peningaþvætti fyrr á árinu og vann skýrslu um þær sem nú liggur nú fyrir. 

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá DNB til norsku kauphallarinnar sem send var í morgun, en Stundin greindi frá málinu. Í frétt Dagens Næringsliv segir að þetta sé langhæsta sektin sem lögð hafi verið á norska fjármálstofnun vegna ónægs eftirlits með peningaþvætti; hún sé 22 sinnum hærri en næsthæsta sektin sem banki hafi þurft að greiða vegna máls sem þessa.

Í tilkynningunni segir að þessi niðurstaða skýrslunnar þýði hvorki að bankinn hafi stundað peningaþvætti né átt aðild að því. Hann hafi ekki sinnt þeim vörnum sem honum bar gagnvart slíkri starfsemi.  Þar segir ennfremur að nú fari stjórnendur DNB yfir niðurstöður skýrslunnar.

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir