Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Noregur í milliriðla með fullt hús stiga

Mynd: EPA-EFE / RITZAU SCANPIX

Noregur í milliriðla með fullt hús stiga

07.12.2020 - 19:15
Noregur vann Rúmeníu í D-riðlinum á EM kvenna í dag. Rúmenía gaf Noregi ekkert eftir og var leikurinn gríðarlega spennandi framan af. Noregur undir stjórn Þóris Hergeirssonar fer í milliriðla með fjögur stig.

Noregur var búið að vinna báða leiki sína til þessa á mótinu stórt. Þær unnu Pólland 35-22 og Þýskaland 42-23. Rúmenía byrjaði á að tapa gegn Þýskalandi, 22-19, en unnu svo Pólland, 29-24.

Bæði lið voru komin áfram í milliriðil fyrir leikinn en mikilvægi leiksins var engu að síður mikið. Leikurinn byrjaði af krafti og eftir rétt rúmlega sjö mínútna leik voru komin tíu mörk og staðan hnífjöfn 5-5. Miðað við gengi Noregs á mótinu til þessa mátti áætla það að stelpurnar hans Þóris væru komnar almennilega í gang þegar Veronica Kristiansen kom Noregi í 8-5 skömmu síðar. Nú eða þegar Nora Mörk kom norska liðinu fjórum mörkum yfir í stöðunni 12-8. Allt kom hins vegar fyrir ekki og þær rúmensku sýndu úr hverju þær eru gerðar, 5-1 kafli liðsins undir lok fyrri hálfleikssins gerði það að verkum að staðan var jöfn í hálfleik 13-13.

Í seinni hálfleik var sama upp á teningnum nema Rúmenía var sterkari aðilinn til að byrja með. Denisa Dedu í marki Rúmena átti frábæran leik en hún varði níu skot og var með 39% markvörslu í leiknum eftir að hafa komið inná í hálfleik. Lorena Ostase kom Rúmeníu í 16-15 þegar 20 mínútur voru eftir af leiknum. Þá tók við 6-1 kafli hjá Noregi þar sem Kari Brattsett kom liðinu í 22-18 þegar skammt var eftir af leiknum og það gaf tóninn fyrir lokamínúturnar sem voru algjörlega í eigu Norðmanna. Svo fór að leiknum lauk með 28-20 sigri Noregs sem fer í milliriðla með fjögur stig. Rúmenía fer sömuleiðis áfram en taka ekkert stig með sér. Katarine Lunde lék sinn 300. landsleik fyrir Noregs hönd og var vel við hæfi að hún skyldi eiga frábæran leik en hún varði 15 skot og var valin besti leikmaður leiksins í leikslok.