Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hertar sóttvarnaraðgerðir boðaðar í Danmörku

07.12.2020 - 00:15
Mette Frederiksen, formaður danska Jafnaðarmannaflokksins, á fundi með fréttamönnum skömmu fyrir kosningar 2019
 Mynd: Danmarks Radio - DR
Danska ríkisstjórnin með Mette Frederiksen forsætisráðherra í broddi fylkingar hefur boðað hertar aðgerðir til að stöðva útbreiðslu kórónuveirufaraldursins í landinu.

Umfang og eðli aðgerðanna verður kynnt á blaðamannafundi á morgun en þær hafa áhrif í Kaupmannahöfn, Árósum, Óðinsvéum og allmörgum sveitarfélögum á Sjálandi. Útbreiðsla faraldurins er mest á þessum svæðum segir Mette Frederiksen í ávarpi á Facebook.

„Því miður þarf að grípa til lokana að hluta til á landfræðilega afmörkuðum svæðum," segir hún. 

Ríkisstjórnin hefur fundað með öðrum stjórnmálaflokkum um helgina við skipulagningar aðgerðanna en Mette Frederiksen segir brýnt að bregðast hart og hratt við svo hægt verði að ná böndum á útbreiðsluna fyrir jól. Hún segir að það útheimti miklar fórnir, eina ferðina enn.