Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Eivör okkar springur út

Mynd með færslu
 Mynd: Sigga Ella - Sync

Eivör okkar springur út

07.12.2020 - 11:27

Höfundar

Eivör Pálsdóttir er hæglega einn af helstu popplistamönnum Norðurlanda í dag og vegur hennar fer vaxandi. Segl, nýjasta plata hennar – og sú níunda – treystir hana enn frekar í sessi. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Plötur Eivarar hafa verið alls konar. Hún hefur sungið djass, kántrí, þjóðlagapopp, rokk og sinnt tilraunamennsku – svona meðal annars.  Eftir að hún fór að vinna reglubundið með eiginmanni sínum, tónskáldinu Tróndi Bogasyni, er eins og vegferðin hafi farið að verða traustari. Eftir heilmikið stílaflakk er eins og það sé verið að lenda ákveðinni stefnu. Það helst enda í takt við auknar vinsældir, frekari tónleika á erlendri grundu og hálfgert strandhögg í landi Breta en Eivör kom fram í þætti Jools Holland árið 2017, eftir að platan Slör hafði verið gefin út á ensku það ár. Þetta samstarf hennar og Trónds sem ég er að vísa í hófst á Room (2012) og hélt svo áfram á Bridges (2015) og svo Slör (2015). Það að sami upptökustjóri sé á þeim öllum gefur þeim vissan heildarhljóm, þó ólíkar séu þær innbyrðis. Það má samt segja að á Slör hafi verið byrjað að tálga til þá Eivöru sem við heyrum í hér. Poppstjörnuna Eivöru. 

Segl er þannig meðvitað útspil hvað auknar alþjóðlegar vinsældir varðar. Fyrir það fyrsta er hún á ensku (9 lög af 12) og hér stígur poppdívan Eivör fram með mjög ákveðnum hætti. Hún mátar sig við söngkonur eins og Lykke Li, Tove Lo, Susan Sundför og Robyn og stenst að sjálfsögðu allan samanburð. Það er viss þrískipting í útfærslunni hér. Það sem er nýtt er sterk áhersla á kalt, stáli bundið og pumpandi nútímapopp, tölvu- og taktvinna í blússandi gír, evrópsk klúbbastemning til grundvallar víða. Í öðru lagi er það dramað, epíkin sem Eivör hefur alltaf unnið með, eitthvað sem hún gerir eins og að drekka vatn. Óðurinn til Kate Bush heldur áfram hér, eins og á öðrum verkum hennar. Sjá t.d. hið ógurlega „This City“, sem sameinar Bush-poppið og nútímastemninguna sem ég nefndi í upphafi. Í þriðja lagi er það svo þjóðlagaminnið, færeyski bragurinn sem Eivör hefur alltaf unnið með, leynt eða ljóst. Hann er vissulega hverfandi hérna og helst má heyra hann í rólegri lögunum og þá sérstaklega þeim sem sungin eru á færeysku, eðlilega. Þegar best lætur koma þessir þrír þættir saman í einum glæsilegum skurðpunkti: Fyllilega nútímaleg poppdíva sem vinnur með gerðarlega, dramabundna og epíska tónlist að hætti Kate Bush og Björk um leið og hún er með báða fætur kirfilega í Götusandinum fagra. Ég tek hofmannlega ofan fyrir drottningunni...