Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Einstakt samstarf á Norðurslóðum og áhrifin af COVID

Mynd: Skjáskot / Skjáskot
Norðurheimskautið er í hugum einhverra kannski bara Norðurpóllinn sjálfur, með tilheyrandi kulda og myrkri. Þetta svæði er hins vegar mun umfangsmeira en svo og hefur orðið sífellt mikilvægara í augum margra ríkja síðustu ár, ekki síst vegna bráðnunar heimskautaíssins. Þar er nú orðinn greiðari aðgangur að verðmætum náttúruauðlindum á borð við olíu og gas, og nýjar siglingaleiðir orðnar færar um Norður-Íshaf

Ef við sjáum fyrir okkur fulllestað gámaskip, þá eru miklir hagsmunir fólgnir í því að stytta siglingaleiðina milli markaða Asíu og Evrópu um tvær vikur eða svo með því að fara norður fyrir Rússland, í staðinn fyrir að þurfa að fara suður fyrir, í gegnum Súesskurðinn og um Miðjarðarhaf.

En þessum tækifærum fylgja ákveðnar áhættur, ekki síst fyrir umhverfið. Og málið með Norðurslóðir er að það á enginn þetta svæði í raun. Til þess að reyna að koma á einhverri röð og reglu var Norðurskautsráðið stofnað árið 1996, sem samstarfsvettvangur þeirra átta ríkja sem eiga landsvæði innan þeirrar línu sem afmarkar Norðurslóðir, oft miðað við sextugustu og sjöttu breiddargráðu norður.

Aðildarríkin eru Bandaríkin og Kanada í Norður-Ameríku, Rússland í austri og svo Norðurlöndin: Ísland, Finnland, Noregur, Svíþjóð og Danmörk, vegna yfirráða á Grænlandi.

Enn ein skrifræðissamkoman, gætu margir hugsað. 

epa02918305 A Greenpeace International handout photo released on 15 September 2011 shows two crew members get their first sight of sea ice from the bow of the Arctic Sunrise, in waters off of arctic Svalbard. The organisation has arrived in the arctic at
 Mynd: EPA - GREENPEACE INTL.
Áður ófærar siglingaleiðir eru að opnast á Norðurslóðum.

Það sem gerir samstarfið þó sérlega mikilvægt er að þær þjóðir sem búa á Norðurskautssvæðinu eiga einnig sína fulltrúa í ráðinu, til dæmis Samar í norðurhluta Skandinavíu og Inúítar á Grænlandi, í Kanada og Alaska.

Sagan hefur kennt okkur að það er ekki sjálfsagt að Bandaríkin og Rússland starfi bróðurlega saman á alþjóðavettvangi. Í Norðurskautsráðinu er starfsemin þannig að aðildarríkin átta skiptast á formennsku til tveggja ára í senn, þar sem þau fá tækifæri til að leggja sérstaka áherslu á ýmis mál er varða samstarf á Norðurslóðum.

Formennskan eins og að leikstýra söngleik

Ísland fer nú með formennsku og lýkur sínu tveggja ára tímabili næsta vor. Yfirskrift formennsku Íslands, Saman til sjálfbærni á Norðurslóðum, leggur sérstaka áherslu á málefni hafsins, loftslagsmál og endurnýjanlega orku, en ekki síst fólkið sem byggir Norðurslóðir.

„Ég lýsi því oft þannig að það að vera í formennsku í Norðurskautsráðinu er svipað því að vera leikstjóri í söngleik. Þú tekur við söngleik sem hefur verið í gangi í mörg ár. Þú munt ekki skipta út öllum leikurunum,“ segir Einar Gunnarsson, sendiherra Íslands í málefnum Norðurslóða. Hann er formaður embættismannanefndar Norðurskautsráðsins og má segja að beri höfuðábyrgð á því að áherslur Íslands í formennskunni komist til skila. 

„Við kannski getum breytt aðeins uppstillingunni á sviðinu og fengið aðra til þess að vera í forgrunni og önnur verkefni fara meira til hliðar, og það er þar sem stjórnin í formennskunni liggur. Langflest verkefni sem við erum að keyra mun okkur takast að koma til enda þrátt fyrir þessar breytingar sem stafa af covid,“ segir Einar.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Einar Gunnarsson, sendiherra og formaður embættismannanefndar Norðurskautsráðsins.

Mikil og sérstök áhrif COVID á Norðurslóðum

Einmitt, covid. Ísland hafði ekki lokið sínu fyrra ári í formennsku Norðurskautsráðsins þegar skall á með heimsfaraldri. Óhætt er að segja að valdhafar í flestum, ef ekki öllum ríkjum heims hafi þurft að hlaupa eilítið hraðar síðustu mánuði. Það að halda uppi heilbrigðisþjónustu heima fyrir og bregðast við efnahagsþrengingum hefur verið stóra málið um allan heim.

„Strax í vor þá leiddum við vinnu þar sem við tókum sérstaklega til skoðunar áhrif covid á Norðurslóðum. Mjög fljótt varð það ljóst þegar við byrjuðum að skoða, hvað eigum við að segja, hin efnislegu áhrif covid á Norðurslóðum, að þau eru mikil og sérstök og kannski sérstaklega fyrir frumbyggjasamfélögin. Þau eiga sér langa sögu á Norðurslóðum, frumbyggjasamfélögin eru búin að vera þarna mörg hver í árþúsundir, mjög einangruð lengi og eiga sér slæma sögu þegar kemur að fyrri farsóttum sem hafa dunið á þessum samfélögum og lent á þeim verr heldur en á öðrum samfélögum,“ segir Einar.

Vegna þessa voru settir á fót vinnuhópar sem huga meðal annars sérstaklega að lýðheilsu og félagsmálum á svæðinu til þess að bregðast við stöðunni. Það má því segja að faraldurinn sé að varpa ljósi á það hvar innviðir á Norðurslóðum eru veikastir. Bara það að hafa ekki netsamband kemur í veg fyrir að hægt sé að veita þessum samfélögum fjarheilbrigðisþjónustu eins og við nýtum okkur mikið, til þess að vera í beinu sambandi við fagfólk. Það eru því mörg tækifæri til nýsköpunar á Norðurslóðum.
 

Mynd með færslu
 Mynd: Eddi - RÚV
Frá heræfingu Atlantshafsbandalagsins hér á landi.

Hernaðaröryggismálum haldið utan við ráðið

En þrengjum nú aðeins linsuna. Síðustu ár hafa fréttir borist af auknum hernaðarumsvifum á Norðurslóðum og við komum inn á það áðan að það er ekki sjálfsagt mál að fá Bandaríkjamenn og Rússa til að setjast niður og vinna saman. Það hefur hins vegar gengið vel í Norðurskautsráðinu, kannski sérstaklega þar sem helsta bitbeini stórveldanna - hernaðarmætti og yfirráðum - er haldið utan við starfsemi ráðsins. Hernaðaröryggismál eru einfaldlega ekki á dagskrá. 

„Sumir vilja líta á það sem galla í starfsemi ráðsins en margir þeirra sem vinna innan ramma Norðurslóðasamstarfsins eru á öndverðri skoðun og telja þetta kannski vera lykilástæðuna fyrir því að það hefur tekist að halda Norðurslóðasamstarfinu vel gangandi, þrátt fyrir auknar víðsjár milli ríkja heims. Hingað til hefur það tekist, þrátt fyrir Úkraínudeilu, Scripal-málið og fleiri ágreiningsmál sem hafa litað í raun allt annað alþjóðasamstarf sem við þekkjum. En hins vegar, ef Norðurskautsráðið vinnur sín verkefni vel, þá er það til þess fallið að draga úr spennu og hafa jákvæð áhrif á öryggismál á þessu svæði,“ segir Einar.

President Donald Trump listens during the the United Nations Climate Action Summit during the General Assembly, Monday, Sept. 23, 2019, in New York. From left, National Security Adviser Robert C. O'Brien, White House chief of staff Mick Mulvaney, Secretary of State Mike Pompeo, Trump, Vice President Mike Pence, and U.S. Ambassador to the United Nations Kelly Craft. (AP Photo/Evan Vucci)
 Mynd: AP
Donald Trump, Mike Pompeo og Mike Pence.

Út á við hafa öryggismál á Norðurslóðum hins vegar verið til umræðu, ekki síst frá í ríkisstjórn Donalds Trumps sem senn lætur af embætti í Bandaríkjunum. Mike Pence varaforseti og Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna komu báðir hingað til lands í fyrra þar sem þeir ítrekuðu áhyggjur af auknum umsvifum Rússa og Kínverja á Norðurslóðum, og mikilvægi Íslands í því samhengi.

Er hægt að lesa út úr þessu að Bandaríkjastjórn hafi verið að rugga bátnum í samstarfinu, og jafnvel reynt að einangra Rússa innan ráðsins? Halla Hrund Logadóttir stýrir miðstöð Norðurslóða við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum.

„Það má kannski segja sem svo að stjórn Trumps hafi lagt megináherslu á varnarmálin og viðskiptamálin þegar kemur að Norðurslóðasamvinnu. Þegar kemur að varnarmálunum þá er geopólitíkin lykilatriði. Eins og þú bendir á þá var umræðan mikið tengt því hvernig mætti í rauninni horfa á aukin áhrif Rússa og Kínverja á svæðinu og milda þau mögulega með meiri samvinnu. Það var kannski rauði þráðurinn í stjórn Trumps hvað þetta varðar,“ segir Halla Hrund.

Það má því segja að það hafi verið greinileg áherslubreyting hjá Bandaríkjunum á þessum fjórum árum í forsetatíð Trumps. 

„Ríkisstjórn Trump lagði áherslu á Norðurslóðir í öðru samhengi heldur en kannski Obama gerði. Við sáum að hann var með yfirlýsingar um að kaupa Grænland, mjög óhefðbundnar yfirlýsingar. Í þess anda voru hagsmunir Bandaríkjanna, eða áherslan í hans stjórnartíð meiri á varnarmálin tengt strategíu, tengt áhrifum Rússlands og Kínverja á svæðinu,“ segir Halla Hrund.

epaselect epa07908372 Democratic candidate for United States President, Former Vice President Joe Biden, smiles as he prepares to make a speech during a campaign stop at the Governor's Inn in Rochester, New Hampshire, USA, 09 October 2019. During his address, Biden said, 'Donald Trump has violated his oath of office, betrayed this nation and committed impeachable acts. To preserve our Constitution, our democracy, our basic integrity, he should be impeached'.  EPA-EFE/CJ GUNTHER
 Mynd: EPA
Joe Biden, tilvonandi forseti Bandaríkjanna.

Leyfilegt að tala um loftslagsmál á ný með Biden

Þegar Joe Biden tekur við taumunum í Hvíta húsinu er hins vegar búist við breytingu á stefnu Bandaríkjanna í utanríkis- og öryggismálum, jafnvel strax frá fyrsta degi. 

Og Antony Blinken, sem er utanríkisráðherraefni Bidens, er einmitt lýst sem alþjóðasinna sem leggur áherslu á samstarf við önnur ríki. Má með þessum stjórnarskiptum búast við breyttum tón frá Bandaríkjunum á ný þegar kemur að Norðurslóðum?

„Kannski stóra breytingin þegar við horfum á Biden, það eru loftslagsmálin. Það eru umhverfismálin. Það er alþjóðasamvinnan heilt yfir. Og þar með mun það verða leyfilegt að tala um loftslagsmálin, innan Norðurskautsráðsins, sem var ekki á meðan að Trump var,“ segir Halla Hrund.

Hún telur það einnig koma Norðurslóðasamstarfinu vel að Biden skipi John Kerry sem sérstakan erindreka í loftslagsmálum.

„Það eru góðar fréttir með það í huga að hann hefur mikla vigt í þessum málaflokki og hann er líka einhver sem þekkir Norðurslóðamálin. Það hefur stundum verið áskorun í þessum málaflokki, að það hefur skort þekkingu eða áhuga,“ segir Halla Hrund.

epa05369003 A picture made avialable on 16 June 2016 show US Secretary of State John Kerry (C-R) Norweigan Minister of Foreign Affairs Borge Brende (C-L) and Director of the Norwegian Polar Institute Jan-Gunnar Winther (R) aboard the research vessel &quot
 Mynd: EPA - NTB SCANPIX
John Kerry á Norðurslóðum með norskum stjórnvöldum 2016.

Telur að breytingar verði á ráðinu á næstu árum

Við komum inn á áhuga hér á undan, þar sem breytingarnar sem orðið hafa á svæðinu draga að sér athygli fleiri ríkja sem ekki tengjast Norðurslóðum með beinum hætti, en sjá hagsmuni fólgna í þeim tækifærum sem þar bíða. En Norðurskautsráðið fjallar ekki um hernaðarmál og tekur almennt ekki bindandi ákvarðanir fyrir svæðið. Hvert og eitt ríki þarf því að setja eigin lög og reglur varðandi Norðurslóðir, ef viðurlög eiga að gilda.

„Það hefur þjónað Norðurskautsráðinu og samvinnunni ágætlega svona heilt yfir. Hins vegar er það alveg ljóst að það er þörf á því að styrkja vinnu Norðurskautsráðsins. Ein af þeim áskorunum sem er mjög einföld má til dæmis nefna að ráðið er ekki vel fjármagnað og ekki til langs tíma. Við þurfum að vera með sterkan samstarfsvettvang sem raunverulega getur gert langtímaplön. En við munum eflaust sjá einhverjar breytingar á Norðurskautsráðinu á komandi árum eða áratugum,“ segir Halla Hrund.

Í starfi sínu vestanhafs greinir Halla vaxandi áhuga á Norðurslóðamálum almennt. Ekki síst þar sem áhrif loftslagsbreytinga á jörðinni eru einna greinilegust á þessu svæði.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot
Halla Hrund Logadóttir stýrir miðstöð Norðurslóða við Harvard-háskóla.

„Við erum einfaldlega að upplifa það að hluti heimsins er að opnast vegna þess að loftslagsbreytingar er að valda þess að það er minni ís á svæðinu. Svæðið er mun aðgengilegra og mun koma til með að verða mun aðgengilegra þegar fram líða stundir. Þannig að við erum að sjá mjög viðamiklar breytingar. Þessar breytingar hafa ótrúlega margs konar umhverfisþætti og áhrif á vistkerfi og annað,“ segir Halla Hrund.

Fjölmargar og breytilegar áskoranir í öryggismálum

Og þau fjölmörgu tækifæri sem fylgja þessum breytingum, sem sést einna best með opnun siglingaleiða um Norðurskautið og betri aðgangi að náttúruauðlindum, snerta gríðarlega fjölbreytta hagsmuni margra ríkja, og ekki síður stórfyrirtækja. En böggull fylgir skammrifi og þess vegna felst mikilvægi Norðurslóðasamstarfs ekki síst í að undirstrika þær áskoranir sem fylgja. 

„Þetta eru siglingaleiðir sem koma til með að opnast meira og meira þannig að viðskiptavinkillinn, varnar- og öryggisáskoranir, ekki bara hernaðaröryggi heldur líka öryggi sem tengist öryggi skipasilgninga, umhverfisöryggi, mengunarslys og annað sem mun fylgja mögulega aukinni traffík og auðlindanýtingu á svæðinu. Þetta eru dæmi um það hversu þverfaglegt og margs konar Norðurslóðamálin eru,“ segir Halla Hrund.

Mynd með færslu
 Mynd:
Áhrif loftslagsbreytinga eru afar sýnileg á Norðurslóðum.

Átakalítið samstarf og tækifærin fjölmörg

Þrátt fyrir að í Norðurskautsráðinu komi saman ríki með ólíkar áherslur í mörgum málum hefur rauði þráðurinn verið þessi átakalitli samstarfsvettvangur alveg frá stofnun ráðsins árið 1996. Það er ekki auðvelt að útskýra hvers vegna samstarfið hefur gengið svona átakalaust. 

„Norðurskautsráðið verður til í lok Kalda stríðsins. Það skapaðist einstakt tækifæri og ég held að menn hafi notið þess mjög að Norðurskautsráðið var byggt svona frá botninum og upp en ekki frá toppnum og niður. Við erum með öflugt samstarf einstaklinga sem eru að vinna með vísindi og þekkingu. Við höfum náð að byggja í kringum það og haldið áfram að fókusera á það sem við gerum best,“ segir Einar Gunnarsson.

Og það er ekkert sem bendir til þess að halla muni á samstarfið vegna kórónuveirufaraldursins. Í rauninni þvert á móti.

„Það var mikill ótti að þetta myndi allt fara í baklás og það yrði erfitt að ná saman um viðfangsefni. En góðu fréttirnar eru og það sem fær mann til að fyllast bjartsýni þegar maður horfir á möguleikana í Norðurslóðasamvinnu eftir COVID, er að við sáum og erum stöðugt að sjá hvað við getum nýtt tæknina mikið. Við höfum fengið yfir 800 manns á ólíka fundi og í rauninni miklu fleiri en hefðu tekið þátt í verkefninu annars. Það má kannski segja að tæknin hafi hjálpað okkur,“ segir Halla Hrund.

Mynd með færslu
 Mynd: Utanríkisráðuneytið
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands.

Rússar taka við með svipaða nálgun

Rússar taka við formennsku Norðurskautsráðsins af Íslendingum í vor. Þeir kynntu áherslur sínar fyrir skemmstu þar sem þeir ætla að einblína enn frekar á sjálfbæra þróun á Norðurslóðum.

„Okkur líst prýðilega á þessar rússnesku áherslur. Þær tala mjög vel við áherslur Íslands í ráðinu. Rússar hafa svipaða nálgun að því leytinu til eins og Íslendingar að þeir leggja mikla áherslu á að það sé jafnvægi milli þessara þriggja grunnstoða sjálfbærar þróunar. Sem er umhverfisvernd, efnahagsleg framþróun og félagsleg framþróun. Það er greinilegt að áherslur Rússa liggja að mörgu leyti í svipaðar áttir,“ segir Einar Gunnarsson sendiherra.

Ef við horfum á það í söngleikja-líkingunni hans Einars eins og hér í upphafi, þá virðist uppstillingin á sviðinu ekki ætla að breytast mikið þrátt fyrir að Rússland, hið sögufræga stórveldi, taki við stjórnartaumunum af Íslandi. Og það kannski undirstrikar hversu merkileg þessi Norðurslóðasamvinna er í alþjóðlegum samanburði.

„Þetta er tækifæri fyrir Ísland að sitja við sama borð og Rússland og Bandaríkin, og hafa þessi áhrif. Það er í rauninni alveg ótrúlegt,“ segir Halla Hrund Logadóttir, stjórnandi miðstöðvar Norðurslóða við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV