Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

80 heimilislausir bíða húsaskjóls

06.12.2020 - 19:26
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Vandi heimilislausra hefur ekki minnkað í faraldrinum. Í Reykjavík bíða áttatíu heimilislausir eftir húsaskjóli. Í ár hafa þrjátíu prósentum fleiri þáð mataraðstoð frá Frú Ragnheiði hjá Rauða krossinum. 

Það er verið að leggja lokahönd á smáhýsi í Gufunesi. Reykjavíkurborg fær þau afhent á þriðjudag og svo verður þeim úthlutað.

„Við erum að vonast til að geta úthlutað vonandi í þessari viku eða í næstu,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar (S).

Heiða Björg vonast til þess að fólk geti flutt inn í húsin fyrir jól. 

Vandi heimilislausra hefur ekki minnkað í ár. Samkvæmt upplýsingum frá Rauða krossinum leituðu á þessu ári um tvö hundruð nýir skjólstæðingar til Frú Ragnheiðar, sem er verkefni sem felst í því að aðstoða heimilislausa og þá sem nota vímuefni í æð. Þá þáðu þrjátíu prósentum fleiri næringaraðstoð í ár en í fyrra og fjörutíu prósentum fleiri þáðu akstur í neyðarskýli. 

Smáhýsin í Gufunesi eru fimm talsins.

„Þetta væntanlega nær ekki utan um allan vanda. Nei, ekki þessi hús ein og sér. Við eigum núna 20 hús, sem sagt 15 í viðbót sem við eigum eftir að koma fyrir hér og þar um borgina. En síðan erum við líka að kaupa íbúðir,“ segir Heiða Björg.

Hvað eru margir á biðlista?

„Þetta eru 80 manns búsettir í Reykjavík, fólk sem er að koma úr heimilisleysi og er tilbúið til þess að taka á leigu íbúð eða svona lítið hús og fara að halda heimili þar með stuðningi,“ segir Heiða Björg.

Smáhýsin eru í samræmi við stefnu borgarinnar um skaðaminnkun og ekki er gerð krafa um að fólk sé án vímuefna. Heiða Björg vonast til þess að heimilislausum fjölgi ekki í faraldrinum.

„Það er auðvitað ógn sem við sem samfélag hljótum að vilja koma í veg fyrir með öllum tiltækum ráðum því það er mjög skaðlegt fyrir einstaklinga, fjölskyldur og samfélög ef fólk einhvern veginn hrekst út af því að geta átt heima einhvers staðar,“ segir Heiða Björg.