Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Veðráttan og baslið brýst fram í birkitrénu

Mynd: Menningin / RÚV

Veðráttan og baslið brýst fram í birkitrénu

05.12.2020 - 09:00

Höfundar

Myndlist, hönnun, trésmíðar og verkfræði skerast á sýningu Unndórs Egils Jónssonar, Cul-De-Sac, í Kling og Bang.

Unndór vinnur með skúlptúr, innsetningar og húsgagnasmíðar en á sýningunni í Kling og bang sýnir hann muni sem eru unnir úr við. 

„Hér er Unndór að fabúlera með efnið sem slíkt,“ segir Daníel Björnsson sýningarstjóri. „Það kemur saman í eitt og ber þetta nafn, Cul-de-sac, sem er franska og samheiti yfir eitthvað sem heitir botnlangi, en hefur víðari skírskotun og kemur skemmtilega út.“  

Unndór segist oft vera að vinna með borgarmenningu og náttúru, samsuðu hins villta og tamda. Viðurinn hafi báða þessa eiginleika og sé þess vegna kjörinn til að vinna með. Á sýningunni er meðal annars verkið Spýtu bregður, stórt gangvirki úr tré sem trekkir upp spýtu þar til hún losnar og slær létt á málmgjöll. Á sama tíma hrekkur önnur spýta á hinum enda gangvirkisins við líkt og henni bregði. 

„Ég fór að hugsa um hvað það er að bregða. Þegar manni bregður er það augnablik þar sem maður áttar sig á að maður er til: maður er lifandi og í núinu. Mig langaði að taka spýtu, sem er dáinn hlutur, og athuga hvort hún gæti öðlast tilveru með því að verða stöðugt brugðið.“  

Í verkinu rennur saman myndlist, smíðar og verkfræði.  

J„Þetta er unnið þannig að maður smátt og smátt krafsar sig áfram og útlit verksins ræðst af gangvirkinu og hvernig fúnksjóninni.“  

Unndór vinnur líka jöfnum höndum með myndlist og húsgagnahönnun. Á sýningunni eru lampar sem gerður eru úr íslensku birki og hnotu. 

„Ég hef alltaf haft áhuga á formi íslenska birkitrésins. Veðrátta landsins og strögglið við að búa hérna kemur fram í forminu á trénu sem mig langar og nota og styðja við það í ákveðnum hlutum þannig að það nái að njóta sín.“

Fjallað var um sýninguna í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.