Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Tugir handteknir í mótmælum í París

05.12.2020 - 16:51
epa08864234 A protester moves on a hand lift truck as a car is on fire during a protest against France's controversial global security law, in a street between Porte des Lilas and Gambetta square, in Paris, France, 05 December 2020. The global security legislation passed by the French Parliament aims to ban the distribution of photos in which police officers and gendarmes can be identified in a way which is harmful to their image.  EPA-EFE/BENJAMIN LEGIER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Lögregla og mótmælendur tókust á í París í dag þar sem nýrri öryggislöggjöf var mótmælt. Kveikt var í bílum og búðargluggar brotnir en lögregla beitti táragasi til að freista þess að stöðva átökin.

Gerald Darmanin innanríkisráðherra Frakklands greindi frá því á Twitter að minnst 22 mótmælendur hefðu verið teknir höndum í dag. Talið er að tugir séu særðir eftir átök við lögreglu.

Þetta er önnur helgin í röð þar sem tekist er á í París vegna nýju öryggislaganna. Blásið var til um hundrað mótmæla víðs vegar um landið í dag vegna laganna. 

Mótmælin eru farin að valda Emmanuel Macron forseta erfiðleikum en myndband af lögreglumönnum berja svartan mann í nóvember olli mikilli ólgu í landinu sem aukið hefur kraft mótmælanna. Fjórir lögreglumenn hafa verið ákærðir fyrir að ráðast á manninn og beita hann kynþáttaníði.

Öryggislögin fela meðal annars í sér hömlur á að taka upp lögreglufólk við störf. Mannréttindasamtök og baráttufólk fyrir fjölmiðlafrelsi segja lögin munu verða til þess að erfiðara verði að sækja lögreglu til saka fyrir brot í starfi. Talsmaður flokks forsetans lofaði því í byrjun mánaðar að lögin yrðu endurskoðuð frá grunni vegna líkamsárásarinnar í síðasta mánuði.

Macron sagði í viðtali í gær að ljóst væri að ofbeldismenn væri að finna innan raða lögreglu og nauðsynlegt væri að þeir svöruðu til saka fyrir brot sín. Hann neitaði því hins vegar að öryggislögin fælu í sér aðför að mannréttindum.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV