Þrátt fyrir heimsfaraldurinn stendur Guðmundur Jakobsson stoðtækjasmiður sína vakt og sumir af hans skjólstæðingum búa í Færeyjum. Hann hefur farið þrjár vinnuferðir þangað í faraldrinum.
„Þar sem við höfum þurft að fljúga héðan til Kaupmannahafnar, frá Kaupmannahöfn til Færeyja. Í þessi skipti er búið að skanna okkur, mig og samstarfsfélaga sextán sinnum í heildina,“ segir Guðmundur.
Þetta sem sagt er þá að lengja ferðina til Færeyja um marga klukkutíma?
„Já, þetta er bara eins og að fljúga til Miami. Við erum upp undir 7-12 tíma að fara þarna. Við þurfum að bíða á flugvellinum í Kaupmannahöfn og sáralítið opið þar,“ segir Guðmundur.
Þarftu þá að taka með þér nesti?
„Já já, við þurfum að nesta okkur upp. Þetta er bara eins og að fara í útilegu. Síðan þurfum við að fara í skimun þegar við komum inn til Færeyja og þurfum að bíða til tólf daginn eftir til að fá út úr því. Síðan erum við líka skimaðir á spítalanum í Færeyjum,“ segir Guðmundur.
Þú ert bara orðinn vanur að fá þessa löngu sýnatökupinna upp í nasirnar?
„Ja, vanur. Ég held að maður geti aldrei sætt sig við þetta,“ segir Guðmundur.