Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Þarf að vera einn á hótelherbergi í Tókýó um jólin

Mynd: Ari Magg / Ari Magg
Tómir flugvellir, tengiflug, sýnatökur og sóttkvíar einkenna líf þeirra sem þurfa að ferðast vegna vinnu. Flug falla niður og því þarf þekktasti píanóleikari landsins að verja jólum einn á hótelherbergi í Japan.

Þrátt fyrir heimsfaraldurinn stendur Guðmundur Jakobsson stoðtækjasmiður sína vakt og sumir af hans skjólstæðingum búa í Færeyjum. Hann hefur farið þrjár vinnuferðir þangað í faraldrinum.

„Þar sem við höfum þurft að fljúga héðan til Kaupmannahafnar, frá Kaupmannahöfn til Færeyja. Í þessi skipti er búið að skanna okkur, mig og samstarfsfélaga sextán sinnum í heildina,“ segir Guðmundur.

Þetta sem sagt er þá að lengja ferðina til Færeyja um marga klukkutíma?

„Já, þetta er bara eins og að fljúga til Miami. Við erum upp undir 7-12 tíma að fara þarna. Við þurfum að bíða á flugvellinum í Kaupmannahöfn og sáralítið opið þar,“ segir Guðmundur.

Þarftu þá að taka með þér nesti?

„Já já, við þurfum að nesta okkur upp. Þetta er bara eins og að fara í útilegu. Síðan þurfum við að fara í skimun þegar við komum inn til Færeyja og þurfum að bíða til tólf daginn eftir til að fá út úr því. Síðan erum við líka skimaðir á spítalanum í Færeyjum,“ segir Guðmundur. 

Þú ert bara orðinn vanur að fá þessa löngu sýnatökupinna upp í nasirnar?

„Ja, vanur. Ég held að maður geti aldrei sætt sig við þetta,“ segir Guðmundur.

 

Mynd: RÚV / RÚV

En það eru fleiri sem þurfa að þola þetta rót í nösunum ótt og títt. Sara Björk Gunnarsdóttir knattspyrnukona er ein þeirra.

„Örugglega svona, ég veit, ekki, 30 skimanir, eigum við að segja það,“ segir Sara Björk.

Þannig að þú er farin að þekkja þessa pinna vel?

„Já, þeir eru mismunandi,“ segir Sara Björk.

Þannig að þú er farin að þekkja þessa pinna vel?  

„Já, ég hef þurft að ferðast dálítið mikið. Náttúrulega með félagsliði og með landsliðinu. Þetta eru búin að vera nokkur tengiflug. Það er erfiðara að panta flug, beint flug, og það er ekkert mikið af flugum farið. Þetta hefur kannski tekið upp í 12-14 tíma ferðalögum,“ segir Sara Björk.

Sara segir að í byrjun faraldursins hafi nánast allt verið lokað á flugvöllum.

„Þannig að maður þurfti nánast að taka nesti með sér og fara í kaffisjálfsala. Maður þurfti bara að bjarga sér. Mér fannst ég nánast vera ein á flugvellinum,“ segir Sara Björk. 

Ertu að fljúgja í hálftómum flugvélum?

„Í byrjum var maður einn með þrjú sæti. Núna sest einhver við hliðina á manni og maður passar að halda grímunni nálægt sér. Og ekki snerta sömu huti og manneskjan við hliðina á sér,“ segir Sara Björk.

Hvað er svona skrítnast við að ferðast á þessum faraldstímum?

„Fólk er náttúrulega bara með spritt út um allt. Maður er að passa sig að vera ekki nálægt fólki. Það eru allir með grímur og svo byrjar kannski einhver að hósta og maður reynir að forðast allt fólk. Maður vill ekki snerta ákveðin hurðarhún eða maður dregur fram peysuna til að opna klósettdyrnar,“ segir Sara Björk.

Sara hefur fengið að æfa fótbolta í vinnusóttkví en öðru máli gegnir um Víking Heiðar Ólafsson píanóleikara sem staddur er á hótelherbergi í Tókýó í Japan.

 

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég er í rauninni í tveggja vikna sóttkví áður en ég spila á ansi stóru tónleikaferðalagi um Japan. Ég þurfti að aflýsa fullt af tónleikum sem áttu að vera annars staðar til þess að velja þennan túr. Hér er ég. Mér líður svolítið í svona tveggja vikna sóttkví í Japan eins og ég sé næstum því að brjóta reglur með því að tala við ykkur. Manni fer að líða eins og maður sé alltaf sekur þegar maður er svona mikið í sóttkví eins og ég. Eins og ég sé hálfgert eitur.  Út af sóttkvínni og þessum reglum er í rauninni búið að þjappa túrnum saman. Ég held að þetta séu níu tónleikar á ellefu dögum. Ég er bara í einangrun milli æfinga alltaf. Ég hitti engan,“ segir Víkingur Heiðar.

En ferðalögin hafa gjörbreyst.

„Að komast hingað tók mig 30 klukkutíma sem tæki mig venjulega 16 klukkutíma. Það eru svo fá flug eftir. Svo langir biðtímar á flugvöllum og svo lélegar tengingar. Svo bara að komast inn í landið var meiriháttar erfitt. Það var COVID-próf á flugvellinum og ég þurfti að bíða eftir niðurstöðu á flugvellinum hafandi verið á ferðalagi í 28 tíma. Það var ekkert rosalega auðvelt. Þeir eru nú farnir að brosa við mér á landamærunum sumir. Þeir eru farnir að spyrja hvort ég vilji fá í hægr eða vinstri nösina í þetta skiptið. Það er náttúrulega eiginlega enginn á flugvöllunum, það er eiginlega enginn í þessum vélum. Ég sótthreinsa alla snertifleti alltaf án þess að einu sinni hugsa um það. Ég sótthreinsa sætisbeltin, allt í sætunum. Það sem er náttúrulega eiginlega lang erfiðast fyrir mig er það að ég er náttúrulega bara alltaf í sóttkví. Það hefur sálrænt svolítil áhrif á mann eftir ákveðinn tíma. Ég veit ekki hvað ég er búinn að koma oft komið til Íslands og fara í 5 daga sóttkví og ég er oft bara 7 daga heima milli verkefna. Þá er ég kannski bara 2 daga frjáls maður og svo er maður í einhvers konar stofufangelsi. Og það erfiðasta er að heyra í syni sínum á efri hæðinni og mega ekki hitta hann,“ segir Víkingur Heiðar.

Hann ætlaði að komast heim til Íslands fyrir jólin.

„Ég var með fullkomið ferðaplan að lenda á aðfangadag klukkan tvö. Svo aflýsir Icelandair öllu flugi á aðfangadag og það er ekkert á jóladag. Þannig að ég verð bara einn í Tokyo, sem er svolítið ömurlegt, um jólin. Ég er náttúrulega mjög sár að missa af jólunum, ég er mikið jólabarn. En mér finnst mjög sérstakt að land eins og Ísland með 350 þúsund manns geti bara verið þannig að það einangrast algjörlega sem eyja úti í Norður-Atlantshafi,“ segir Víkingur Heiðar.