Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Styttingin má ekki bara snúast um skrifstofufólk

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Umræðan um styttingu vinnutímans miðast að sumu leyti of mikið við vinnu skrifstofufólks, segir Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins; reyndar gildi slíkt hið sama um alla umræðuna um heimavinnu fólks. Margir félagar í Starfsgreinasambandinu eigi þess ekki kost að vinna heima og þá skipti hlé til að hvílast miklu. 

Í lífskjarasamningunum sem gerðir voru í fyrra var talað um sveigjanlegri og styttri vinnutíma og að bæði starfsfólk og stjórnendur gætu óskað viðræðna um vinnutímastyttingu þar sem farið væri í 36 tíma vinnuviku samhliða virkum vinnutíma. Flosi segir að sú stytting hafi kannski gengið hægar og minna orðið úr henni en efni stóðu til. Í samningunum var sérstakur kafli um vinnustaðasamningar þar gafst á hverjum vinnustað kostur á að stytta vinnutímann í allt að 36 tíma samhliða breytingum á neysluhléum. Útfærslan háð samkomulagi á hverjum vinnustað sem greiða á atkvæði um með eftirliti stéttarfélaganna. 

Flosi segir að Starfsgreinasambandið hafi ekki séð mikið af þessum formlegu samningum en bendir á að lengi hafi tíðkast að menn vinni aðeins lengur til að vinna af sér föstudag, sleppi kaffitímum eða sameini til að stytta daginn og svo framvegis og slíkt gildi áfram. 

Í samningum félaga í Starfsgreinasambandinu sem starfa fyrir ríki og sveitarfélög var samið um styttingu sem gilda á frá áramótum eins og samið var um við önnur félög hjá því opinbera; þeir samningar hafa líka haft áhrif, segir Flosi. 

Þetta er dálítið margbrotið. Fyrir mjög marga af félagsmönnum Starfsgreinasambandsins skipta kafftímar og matartímar miklu máli til að hvílasig. Þeir eru að vinna í líkamlega erfiðum störfum, þeir þurfa að setjast niður. 

Þetta á við í fiskinum og byggingabransanum svo nokkuð sé nefnt. Flosi segir að þess vegna hafi verið lögð mikil áhersla á að gefa ekki eftir hvíldar og öryggishlé.  Standi menn við hausaskurðarvélina þurfi að tryggja hvíld svo menn haldi einbeitingu og haldi öllum fingrum. Þá er líka talið mikilvægt að starfsmenn í umönnunarstörfum, eins og leikskólunum til dæmis,  hafi tækifæri til að setjast niður án skjólstæðinganna og eiga samtal hver með öðrum.

Stundum þegar við erum að tala um sveigjanlegan vinnutíma og að geta unnið heima og kaffitímarnir séu þannig að menn standi upp og labbi að vélinni og allt þetta, þá erum við að horfa á veruleika skrifstofufólks.

Já segir Flosi þegar hann er spurður um hvort sá veruleiki stýri umræðunni um of. Það hafi líka birst í faraldrinum þar sem alltaf sé verið að tala um hve auðvelt sé að vinna heima og að hægt sé að vinna hvar sem er.

Þú sinnir ekki fólki á öldrunarstofnun heiman frá þér. Þú ert ekki á leikskólanum heiman frá þér. Þú skúrar ekki heima hjá í vinnunni og svo framvegis og framvegis. 

Því finnst Flosa sem á stundum sé horft framhjá þeim sem eru Starfsgreinasambandinu og ekki sé verið að greina störf þeirra sem til dæmis hafa ekki mikla formlega menntun.  Umræðan um styttinguna hafi á stundum leiðst út í lúxussamtal um það hvernig fólk í ákveðinni tegund af  störfum geti haft meira frelsi og sjálfræði í sínu lífi.

Margt fólk í Starfsgreinasambandinu er aðallega hugsa um hvernig það getur náð endum saman. Hvernig get ég lifað af kaupinu mínu, frekar en hvernig get ég verið meira heima. 

Útfærsla styttingar vinnutímans sem tekur gildi um áramótin hjá ríki og sveitarfélögum og sú sem kveðið var á um í Lífskjarasamningunum er að mörgu leyti flókin, segir Flosi. 

Á næstu árum telur hann að vinnuvikan styttist í umrædda 36 tíma og það sé auðvitað kjarabót. En það verði að gæta að því að þetta sé ekki bara lúxús fyrir skrifstofufólk segir Flosi. 

Margt af hinu félagslega starfi Starfsgreinasambandsins er í nokkrum hægagangi núna vegna farsóttarinnar, en á næsta ári á að skoða hvernig hefur tekist til með styttinguna. Samningar á almennum vinnumarkaði gilda til 1. nóvember árið 2022 og þá verður horft til tvenns, það er hvernig ákvæði sem samið var um í almennu samningunum hafa nýst og líka reynslunnar af samningum á opinbera markaðinum, því alltaf sé til bóta að samningar um kaup og kjör séu svipaðir óháð atvinnurekandanum, segir Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins.