
Risastór vígahnöttur sást yfir Norður-Noregi
Á vef NRK kemur fram að fjöldi fólks varð vitni að tilkomumiklu sjónarspilinu. Að sögn stjörnufræðingsins Vegard Lundby Rekaa var þarna sjaldgæft fyrirbæri á ferð, stór loftsteinn sem kom inn í andrúmsloft jarðar á mikilli ferð.
Hann starfar fyrir áhugamannasamtök um loftsteina og segir að á þeim fimm árum sem þau hafi starfað hafi um fimm jafnstórir lofsteinar náðst á mynd. Rekaa kveður steininn hafa verið á braut um sólu um milljarða ára áður en hann fór inn fyrir lofthjúp jarðar.
Í skrifum Þorsteins Vilhjálmssonar, prófessors emeritus, á Vísindavef Háskóla Íslands kemur fram að á hverjum sólarhring dynji milljónir geimsteina á lofthjúpnum.
Slíkir steinar eigi uppruna sinn í smástirnabeltinu milli Mars og Júpíters. Núningur við loftið veldur því að steinninn hitnar og fer jafnvel að glóa og brenna.
Slíkur steinn, segir Þorsteinn, er kallaður loftsteinn og talað um um stjörnuhrap þegar fólk sér ljósrákina sem myndast á himninum sem líkist óneitanlega hrapandi stjörnu.