Íslenskur lýtaskurðlæknir sem hefur gagnrýnt sóttvarnaraðgerðir íslenskra yfirvalda opinberlega kom til landsins frá Danmörku í gær og birti myndbönd af því á Facebook þegar hún neitaði að fara í sýnatöku á Keflavíkurflugvelli.
Af myndböndunum að dæma gekk ekki þrautalaust fyrir konuna að komast af flugvellinum en síðar í gær birti hún myndband af sér að lokinni heimsókn til barnanna sinna á höfuðborgarsvæðinu.
Samkvæmt upplýsingum fréttastofu tengjast börnin í myndbandinu ekki málinu.
Þar segist hún ætla að reyna að fara úr landi í dag með börnin sín með sér. Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segist ekki þekkja til þessa tiltekna máls og ekki sé algengt að fólk neiti sýnatöku eða að fara í sóttkví. Neiti fólk sýnatöku og virði ekki reglur um 14 daga sóttkví fari slíkt á borð lögreglu.