Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

September sló öll met á fasteignamarkaði

04.12.2020 - 16:15
Drónamyndir.
 Mynd: RÚV
Fleiri kaupsamningar voru gerðir hérlendis í september en nokkru sinni fyrr eða síðar. Karlotta Halldórsdóttir, sérfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, segir að mikið líf hafi verið á fasteignamarkaði frá afléttingu fyrsta samkomubanns. „Það virðist vera að við höfum náð hámarki í september. September ætlar að slá öll met á fasteignamarkaði og er mánuður sem við höfum ekki séð áður, bæði hvað varðar fjölda kaupsamninga og líka varðandi veltu.“

Karlotta segir að umsvifin megi rekja til stýrivaxtalækkunar Seðlabankans og hagstæðra vaxta.

Salan minnkaði á landsvísu í október og nóvember samkvæmt vísum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Það segir þó ekki alla söguna. „Það er ekki alveg sama þróun yfir landið. Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins er nóvember metmánuður á land en annars staðar á landsbyggðinni er mikil lækkun í nóvember.“ Eftirspurnin eftir húsnæði er mikil en framboðið fer minnkandi. „Það eru færri íbúðir til sölu á hverjum tíma, meðalsölutími eigna hefur minnkað mjög mikið þannig að það er greinilega kapp um hverja íbúð. Svo hefur verðið hækkað töluvert undanfarna mánuði.“