Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Launafólk taki þátt í uppbyggingu ferðaþjónustunnar

04.12.2020 - 17:00
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Alþýðusamband Íslands vill að kjör starfsfólks í ferðaþjónustunni verði bætt þegar uppbygging greinarinnar hefst eftir Covid. Taka verði tillit til hagsmuna launafólks í stefnumótun stjórnvalda um framtíð ferðaþjónustunnar. ASÍ krefst þess að brotastarfsemi í ferðaþjónustunni verði upprætt og tekið verði fyrir kennitöluflakk.

Rétti tíminn núna

Guðbjörg Kristmundsdóttir, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, fór fyrir starfshópi ASÍ sem hefur skilað tillögum um hvað launþegahreyfingin vill leggja áherslu á þegar ferðaþjónustan rís upp. 

„Það er núna sem tíminn er til að ákveða hvernig við viljum hafa ferðaþjónustuna í framtíðinni. Hvernig viljum við sjá hana í framtíðinni og hvað er hægt að bæta og laga,“ segir Guðbjörg.

Krafa ASÍ er að launafólk verði með í ráðum þegar endurbygging ferðaþjónustunnar hefst. Bent er á að í stefnu stjórnvalda um ferðaþjónustuna sé hvergi minnst á starfsfólkið í greininni. Guðbjörg segir að það verði að vera einhverjir sem tali máli launafólks.

„Því það sem starfsfólkið sem byggir og heldur uppi greininni. Á þess er er engin ferðaþjónusta.“

Brotastarfsemi og kennitöluflakk upprætt

Verkalýðshreyfingin vill líka að nú verði gengið til verks og brotastarfssemi í ferðaþjónustu verði upprætt þegar í stað. Frumvarp um févíti verði lagt fram á Alþing og tryggt verði að brotamenn gjaldi fyrir brot sín.

„Já, þó fyrr hefði verið. Það er ekki eðlilegt að það eru atvinnurekendur sem eru vísvitandi að brjóta á starfsmönnum. Eina refsingin sem er í slíkum málum er að þeir eiga að borga það sem þeir áttu að borga til að byrja með. Þú ert ekki að gjalda fyrir brotin. Það þarf að setja einhvers konar févíti á svona brotastarfsemi,“ segir Guðbjörg.
 
Rætt  er nánar við Guðbjörgu í Speglinum.
 

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV