Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ísraelskir borgarar varaðir við ógn af hálfu Írans

epa08857703 Israeli Prime Minister Benjamin Netanyahu , delivers a statement to his Likud party MKs (members of the Knesset), at center of the Likud in the Israeli Knesset (Parliament),in Jerusalem,  02 December 2020.  EPA-EFE/YONATAN SINDEL / POOL
 Mynd: EPA-EFE - FLASH 90 POOL
Ísraelskir borgarar í útlöndum eru varaðir við að þeim gæti staðið ógn af írönskum útsendurum. Ísraelska utanríkisráðuneytið gaf fyrr í dag út viðvörun þessa efnis eftir að Íranir hótuðu að hefna morðsins á Mohsen Fakhrizadeh, fremsta kjarnorkuvísindamanni landsins.

„Við óttumst að Íranir kunni að veitast að ísraelskum borgurum," segir í yfirlýsingu ráðuneytisins. Einkum eru Ísraelar staddir í Afríku varaðir við og eins þau sem eru í löndum nærri Íran á borð við Tyrkland, Kúrdahéruðin í Írak, Georgíu og Sameinuðu Arabísku furstadæmin.

Þjóðaröryggisráð Ísraels segir í yfirlýsingu að samtök herskárra múslima, einkum þau sem kenna sig við múslímskt ríki eða ISIS, hafi sýnt ógnandi tilburði undanfarið.

Ráðið rifjaði upp hryðjuverkaárásir nýverið í Frakklandi, Þýskalandi og Austurríki máli sínu til stuðnings. „Hugsanlegt er að hryðjuverkasamtök beini spjótum sínum að bænahúsum, söfnum og veitingastöðum Gyðinga," segir í yfirlýsingu ráðsins sem hvetur ferðamenn til að vera á varðbergi.

Benjamín Netanjahu forsætisráðherra Ísraels sakar Írani um að hafa beitt alþjóðlega kjarnorkusamkomulagið til að auka ítök sín í Jemen, Sýrlandi og Írak.

Gabi Ashkenazi utanríkisráðherra Ísraels hugðist sækja ráðstefnu í Bahrein um helgina. Ferð hans var aflýst eftir að Hassan Rouhani forseti Írans sakaði Ísraelsmenn um að hafa staðið að morðinu á kjarnorkuvísindamanninum.