
Hjálparsamtök hafa fengið 81 milljón í styrki
Listi yfir úthlutanirnar er birtur á vef Alþingis í svari Ásmundar Einars Daðasonar, barna- og félagsmálaráðherra, við fyrirspurn Ingu Sæland þingmanns Flokks fólksins.
Í fjáraukalögum, sem samþykkt voru í lok mars, var 40 milljónum úthlutað til ýmissa félaga- og hjálparsamtaka. Því til viðbótar lagði félagsmálaráðuneytið fram 15.750.000 krónur og í fjáraukalögum sem voru samþykkt í maí var úthlutað styrkjum til níu félagasamtaka sem hver um sig fengu 2,7 milljónir til að geta brugðist við auknu álagi í þjónustu við viðkvæma hópa. Þá styrki fengu mæðrastyrksnefndir á fimm stöðum á landinu, auk Fjölskylduhjálpar Íslands, Hjálparstarfs kirkjunnar, Hjálpræðishersins og Kaffistofu Samhjálpar.
Í svarinu segir að við ákvörðun úthlutunarinnar hafi verið litið til þeirra félagasamtaka þar sem búast mátti við auknu álagi í kjölfar faraldursins.