Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Fulltrúadeildin samþykkir afglæpavæðingu kannabisefna

04.12.2020 - 20:07
Mynd með færslu
 Mynd:
Fulltrúadeild bandaríska þingsins samþykkti í dag að afglæpavæða kannabis og fjarlægja dóma fyrir brot tengd efninu af sakaskrá fólks ef ekki var um að ræða ofbeldisbrot.

Þingmenn úr báðum flokkum greiddu atkvæði með frumvarpinu og er þetta í fyrsta sinn sem önnur tveggja deilda Bandaríkjaþings samþykkir afglæpavæðingu. Alls greiddu 228 þingmenn atkvæði með frumvarpinu en 164 gegn.

Verði frumvarpið samþykkt af öldungadeildinni verður kannabis fjarlægt af lista yfir bönnuð vímuefni og fimm prósenta skattur lagður á sölu þess, sem rynni til samfélagsverkefna og lítilla fyrirtækja til að hjálpa þeim sem orðið hafa mest fyrir höggi vegna banns á efninu.

Líkurnar á því að frumvarpið hljóti náð fyrir augum öldungadeildarinnar eru hins vegar litlar sem engar. Þar ráða repúblikanar för ólíkt því sem er í fulltrúadeildinni, þar sem demókratar eru með meirihluta. Leiðtogar repúblikana í öldungadeildinni hafa sagt þetta frumvarp tímasóun þegar COVID-19 gengur yfir, þarfari hnöppum þurfi að hneppa.

Engu að síður segja fjölmiðlar vestanahafs að sú staðreynd að fulltrúadeildin hafi samþykkt frumvarpið sé stór stund fyrir baráttufólk fyrir afglæpavæðingu og lögleiðingu kannabisefna.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV