Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Frostið verður 14 stig í dag — 20 stig á morgun

04.12.2020 - 06:36
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Allt að 14 stiga frost verður á landinu í dag og á morgun er spáð allt að 20 stiga frosti. Gul veðurviðvörun hefur verið gefin út fyrir Norðurland eystra, Austurland að Glettingi, Austfirði, Suðausturland og Miðhálendið. Þar er varað við slæmri færð og fólk hvatt til að sýna aðgát.

Í dag er spáð norðan 13-23 m/s, hvassast verður austan til en hvassara í vindstrengjum sunnan Vatnajökuls.

Norðaustan- og austanlands verður snjókoma, él eða skafrenningur, en annars úrkomulaust að kalla. Dregur úr vindi og léttir til, fyrst vestantil og kólnar í veðri. Norðlæg átt, víða 5-13 m/s í kvöld og stöku él fyrir austan, en bjartviðri verður í öðrum landshlutum. Frost verður 2 til 14 stig, mildast við suðausturströndina, en kaldast inn til landsins fyrir norðan.

Breytileg átt 3-8 og léttskýjað á morgun, en líkur á éljum við suðvesturströndina seinnipartinn. Frost verður 10 til 20 stig, en mildara við suður- og suðvesturströndina.

Horfur á landinu næstu daga: Útlit fyrir fremur hæga vinda með björtu veðri víða um land, en stöku éljum við suður- og vesturströndina. Vaxandi austanátt með snjókomu eða slyddu og síðar rigningu á miðvikudag, einkum sunnan- og vestanlands. Mjög kalt um helgina, en dregur síðan úr frosti og hlánar víða þegar líður á miðvikudag.