Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fengu húsnæði á Seltjarnarnesi eftir 130 ára bið

04.12.2020 - 19:45
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
130 ára bið Náttúruminjasafns Íslands eftir varanlegu safnhúsi er lokið. Gerður hefur verið samningur um að safnið flytji út á Seltjarnarnes, í hús sem staðið hefur autt í þrettán ár. Stefnt er að því að opna safnið í húsinu vorið 2023.

Náttúruminjasafn Íslands var stofnsett árið 2007 en rekja má sögu þess allt aftur til ársins 1889 þegar Hið íslenska náttúrufræðifélag var stofnað. Á þeim 13 árum sem eru liðin síðan safnið var formlega stofnað hefur það aldrei átt sérstakt safnhús. Það er hins vegar með aðstöðu til 15 ára í hluta Perlunnar fyrir sýninguna Vatnið í náttúru Íslands.

Nú sér hins vegar fyrir endann á húsnæðisvanda safnsins því það hefur gert samning við stjórnvöld um afnot af húsi á Seltjarnarnesi, skammt frá Gróttu. Þar stóð til að opna lækningaminjasafn en húsið hefur hins vegar staðið ónotað síðan það var byggt árið 2007. Ríkissjóður gekk nýverið frá samningi við Seltjarnarnesbæ um yfirtöku á húsinu, en verkefnið er hluti af fjárfestingarátaki til að vinna gegn samdrætti vegna COVID-19.

Frábær staðsetning

„Nú eignast þetta höfuðsafn þjóðarinnar loksins viðunandi aðstöðu. Og biðin hefur verið býsna löng, allt að því 130 ár,“ segir Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafnsins.

Safnið er búið að vera á hrakhólum síðan það var stofnað formlega árið 2007?

„Já við höfum aldrei átt eigið húsnæði, hvorki til sýningahalds né annarrar starfsemi, þannig að þetta er langþráð. Og staðsetningin hér er frábær í svona mikilli nánd við náttúruna, hafið, Bakkatjörn og mannvistarleifar sem verður virkilega gaman að vinna með og áhugavert.“

Óhætt er að segja að húsið leyni á sér, en í því er bæði hátt til lofts og vítt til veggja.

„Það dugar til að byrja með, en þetta eru 1.360 fermetrar. Þjóðinni fjölgar og ferðamenn eru margir þegar kórónuveirufaraldri léttir þannig að það er fyrirsjáanlegt að það þurfi að stækka tiltölulega fljótlega og teikningar af því liggja nú þegar fyrir,“ segir Hilmar.

Láta hendur standa fram úr ermum

Fylgir þessum samningi eitthvert fjármagn?

„Já í fjárlagafrumvörpum til næsta árs og næstu þriggja ára, þá er gert ráð fyrir 1,2 - 1,3 milljörðum í að laga húsið að okkar þörfum og gera við það. Það hefur staðið tómt síðan 2007 og ýmislegt gerst með húsið. En þarna inni er líka stofnkostnaður fyrir grunnsýninguna okkar.“

Hvenær sjáið þið fram á að geta flutt hérna inn og opnað?

„Það verður sennilega tiltölulega skammur tími. Það er ráðgert að láta hendur standa fram úr ermum og jafnvel að við getum opnað og flutt starfsemi okkar vorið 2023,“ segir Hilmar.