Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Faldi tvo lambahryggi undir úlpunni

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékkst við fjölbreytt verkefni að vanda í gærkvöldi og í nótt. Um kvöldmatarleytið í gær barst lögreglu tilkynning um þjófnað úr matvöruverslun á Seltjarnarnesi, en þar hafði maður sett tvo lambahryggi undir úlpu sína en missti þá er hann hugðist yfirgefa verslunina.

Síðar um kvöldið var tilkynnt um þjófnað úr matvöruverslun í borginni. Þar höfðu þrír komið inn í verslunina.  Tveir keyptu varning en einn fór út  með vörur sem hann hafði ekki greitt fyrir og faldi innan klæða. Öryggishlið gaf hljóðmerki er hann fór út, starfsmaður fór á eftir manninum og náði hluta varningsins en maðurinn komst undan með félögum sínum í bifreið sem beið fyrir utan.  Málið er í rannsókn.

Þrír voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna eða áfengis og einn fyrir hraðakstur.

Af öðrum verkefnum lögreglu má nefna að par var handtekið á vettvangi innbrots í fyrirtæki í Vesturbæ Reykjavíkur og á tólfta tímanum í gærkvöldi var kona  í annarlegu ástandi handtekin í Garðabæ vegna gruns um eignaspjöll.  Þá var skömmu eftir klukkan sex í gærkvöldi tilkynnt um þakplötur að fjúka af húsi í Mosfellsbæ og er talið að skemmdir hafi orðið á bílum.

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir