Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Engar meiriháttar tilslakanir í kortunum hjá Þórólfi

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Engar meiriháttar tilslakanir eru fyrirhugaðar í væntanlegum tillögum sóttvarnalæknis. Hann segir þó ekkert komið á hreint hvernig tillögurnar verða. Það hafi engan tilgang að vera með einhverjar hugmyndir núna því staðan geti breyst á nokkrum dögum. Þeir sem kalli á fyrirsjáanleika verði að fara að skilja að þetta eru ófyrirsjáanlegar aðstæður.

Tólf greindust með kórónuveirusmit í gær en jákvæðu fréttirnar eru að þeir voru allir í sóttkví. „Já, maður hefur áhyggjur ef fólk er að greinast hér og þar og hefur engin tengsl við sýkta einstaklinga sem vitað er um,“ segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. 

Búið er að rekja megnið af þeim litlu hópsýkingum sem hafa komið upp undanfarna dag. „Faraldrar samanstanda af svona litlum hópsýkingum í kringum fjölskyldur, vinahópa og vinnustaði. Þetta eru ekki bara einstaklingar sem eru að greinast hér og þar. Og út á það gengur þessi rakning sem hefur gengið ágætlega.“

Núverandi reglugerð fellur úr gildi þann 9. desember en Þórólfur segir ekkert komið á hreint hvernig næstu tillögur hans til heilbrigðisráðherra verða. „Það er erfitt að toga þetta upp úr mér vegna þess að það hefur engan tilgang að vera með einhverjar hugmyndir og svo breytist allt eftir nokkra daga. Mínar tillögur geta aldrei komið fram fyrr en rétt áður en þær eiga að taka gildi og þá í ljósi stöðu faraldursins.“  Hann segir að þeir sem hafi talað um meiri fyrirsjáanleika virðist eiga erfitt með að skilja að „þetta eru ófyrirsjáanlegar aðstæður sem við erum í.“

Þórólfur hefur þó sagt og segir það aftur núna að það séu engar meiriháttar tilslakanir í kortunum enda ítrekað lýst því yfir að það verði að fara hægt í sakirnar. „Við verðum að fara mjög varlega núna. Fólk er mikið á ferðinni og þetta er tíminn þar sem við erum vön að hittast og vera saman í hópum. Við erum að fara inn í tíma þar sem allt getur gerst og það tekur um það bil viku að sjá afleiðingar af því sem fer úrskeiðis.“

Þórólfur brýnir því fyrir fólk að fara mjög varlega og bendir á að í öðrum löndum séu mjög harðar takmarkanir sem fólk þarf að virða um hátíðirnar.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV