Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Dularfullar málmsúlur spretta upp í Bandaríkjunum

04.12.2020 - 09:48
Mynd með færslu
 Mynd: AFP
Súlur úr málmi hafa fundist nýverið á afskekktum stöðum í Bandaríkjunum, með um 1.300 kílómetra á milli sín. Sú fyrsta fannst í eyðimörk Utah í nóvember við stórhyrningaskoðun. Í vikunni gekk svo hópur göngugarpa fram á aðra á fjallstoppi í Kaliforníu. Ein hefur fundist í Rúmeníu. Kenningar um listagjörning og geimverur hafa sprottið upp á netinu og veitt almenningi hvíld frá heimfaraldri og pólitík. Súlurnar eru svipaðar að stærð og lögun, um þriggja metra háar og gerðar úr málmi.

Fjölmiðlar keppast nú við að birta fréttir og greinar með hinum ýmsu kenningum um hvað gæti verið þarna á ferðinni. The Guardian birti frétt í lok síðasta mánaðar þar sem nokkrar hugmyndir eru viðraðar. 

Leituðu að stórhyrningum en fundu súlu

Það voru ríkisstarfsmenn í eftirlitsflugi um borð í þyrlu sem tóku fyrst eftir súlunni í Utah, sannarlega utan alfaraleiðar, þann 18. nóvember. Fólkið var að telja stórhyrninga (e. Bighorn sheep), kindategund sem lifir villt í fjallgörðum Utah. Þau voru ekki lengi að taka eftir súlunni, enda stingur hún töluvert í stúf við stórgrýtt umhverfið. 

„Einn líffræðinganna tók eftir súlunni þegar við flugum yfir hana fyrir tilviljun,” sagði þyrluflugmaðurinn, Bret Hutchins, við fjölmiðla. 

„Hann var alveg: Vó, vó, vó! Snúðu við, snúðu við! Og ég var bara: Hvað? Og hann bara: „Það er eitthvað dót þarna, við verðum að snúa við og skoða það!" 

Þau ákváðu að skoða þennan dularfulla aðskotahlut nánar sem stakk svo í stúf við umhverfið. Niðurstaðan var að líklega væri um að ræða einhvers konar listaverk. En eftir stóðu þó spurningarnar hver kom súlunni fyrir þarna, og ekki síður, hvernig fór viðkomandi að því? 

Mynd með færslu
 Mynd: AFP
Ríkisstarfsmennirnir í Utah ákváðu að gefa ekki upp nákvæma staðsetningu súlunnar, þar sem hún var á svo afskekktum stað að erfitt er að komast þangað og forvitnir ferðamenn gætu lent í hættu við að komast þangað.

Kubric eða McCracken? 

Samanburður við súluna sem birtist í kvikmynd Stanley Kubric, 2001: A Space Odyssey lét ekki bíða eftir sér lengi. Sömuleiðis hugmyndir um að þarna væru geimverur á ferðinni að senda okkur einhvers konar skilaboð. Súlan var líka borin saman við verk ýmissa listamanna, meðal annars John McCracken, sem lést 2011. Talsmaður hans sagði þó við Guardian að svo væri ekki, en súlan gæti hins vegar verið eftir einhvern annan sem væri þá að votta McCracken virðingu sína á þennan hátt. Talsmaðurinn virðist svo hafa skipt um skoðun því hann sagði síðan við New York Times að súlan gæti raunverulega verið eftir McCracken, en það séu skiptar skoðanir um það innan hans þröngu listakreðsu. 

Ólöglegt, sama frá hvaða plánetu þú ert

Haft er eftir landvörðum á svæðinu í Utah að það skipti engu máli hvort þú sért frægur listamaður eða ekki, eða frá hvaða plánetu þú sért, það er alltaf ólöglegt að koma upp svona hlutum án leyfis. Í ljósi þess hversu mikið rask súlan gæti dregið að sér frá forvitnum ferðamönnum, sem gætu sömuleiðis komið sér í sjálfheldu og slasað sig, var ákveðið að upplýsa ekki um nákvæma staðsetningu verksins. En netverjar létu það ekki stoppa sig og stofnuðu þræði eftir þræði á netinu þar sem hinar ýmsu kenningar um staðsetninguna voru viðraðar. Og eins og gjarnan gerist á slíkum þráðum, spratt fram gagnrýni: Þetta er ekki súla (e. monolith), þar sem þær eru úr steini en ekki járni. Líklega var hún skrúfuð saman, sem bendir til þess að hluturinn er ekki úr gegnheilum málmi.

„Ekki skilja eftir nein ummerki”

Það var svo rúmri viku síðar, nokkurn veginn á sama tíma og hluturinn var hættur að vekja athygli á netinu og fólk var farið að snúa sér að öðru, sem súlan hvarf. Það var auðvitað ekki síður dularfullt. Þó tilkynntu yfirvöld í Utah að fregnir hefðu borist af fólki, eða hópi fólks, sem fjarlægði hana í skjóli myrkurs, kvöldið 27. nóvember. Ekki kom fram hvað, eða hverjir, hefðu þó verið þar á ferð. Vitni sagðist hafa séð fjóra menn bera súluna burt í pörtum á föstudagskvöldinu. „Ekki skilja eftir nein ummerki,” á einn þeirra að hafa sagt, samkvæmt New York Times

Önnur súla á toppi Furufjalls

Bandaríkjamenn fengu þá nokkra daga til þess að hugsa um eitthvað annað en dularfullar málmsúlur á afskekktum stöðum. Ný súla birtist svo á fjallstoppi í Kaliforníu, í bænum Atascadero, sem er lítt þekktur og nokkuð fámennur. Það var gönguhópur á ferð á toppi Furufjalls (e. Pine Mountain) sem gekk fram á súluna og sinntu göngugarparnir auðvitað samfélagslegum skyldum sínum með því að birta myndir af henni á internetinu. Súlan á fjallinu er þrístrend, gerð úr járni, um þriggja metra há og hálfur metri á breidd. Hún virðist vera brædd saman á hliðunum og þar af leiðandi líklega með járnramma innan í. Guardian hefur látið sig súlumálin varða og kemur fram í frétt þar að verkin tvö, Utah-súlan og Kaliforníu-súlan, séu ólíkar. Utah-súlunni hafði verið komið vel fyrir í steinunum í eyðimörkinni, en systir hennar í Kalíforníu var hins vegar örlítið völd og í raun hægt að velta henni á hliðina. Utah-súlan var sömuleiðis örlítið hærri í loftinu en hin. 

Mynd með færslu
 Mynd: Google Maps
Um 1.300 kílómetrar eru á milli eyðimerkurinnar í Utah og Furufjalls í Kaliforníu.

Svo virðist sem súlurnar séu ekki bara bundnar við Bandaríkin því einhverjar fregnir hafa borist af svipuðum hlutum í Rúmeníu og víðar. Nú er bara að bíða og sjá hvort fleiri súlur birtast á skrýtnum stöðum, eða einhver lýsir ábyrgðinni á hendur sér. Eða hvort við fáum kannski í lok þessa áhugaverða árs loks staðfestingu á því að við séum ekki ein í heiminum.

Mynd með færslu
 Mynd: AFP
Nýjustu fregnir herma að súlan á toppi Furufjalls í Kaliforníu sé nú horfin.
sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV