Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Danir ákveða að hætta olíuvinnslu

Mynd: Danmarks Radio / Danmarks Radia
Danir ætla ekki að veita frekari leyfi til olíuleitar og hætta olíuvinnslu í Norðursjó árið 2050. Samkomulag tókst um þetta á danska þinginu í gærkvöld. Samkomulaginu er fagnað og Danir telja sig vera að gefa öðrum þjóðum fordæmi til eftirbreytni.

Víðtækt samkomulag þingflokka

Minnihlutastjórn Jafnaðarmanna og fimm aðrir flokkar sem eiga fulltrúa á þingi samþykktu seint í gærkvöld að frekari leyfi til olíuvinnslu verði ekki veitt og olíuvinnslu Dana í Norðursjó ljúki árið 2050. Í samkomulaginu felst einnig að fé verður veitt til að rannsaka hvernig hægt sé að binda og geyma kolefni. Gert er ráð fyrir að þessi ákvörðun verði til þess að Danir losi 15 prósentum minna af gróðurhúsalofttegundum.

Sérstakur stuðningur við Esbjerg

Í samkomulaginu er gert ráð fyrir sérstökum stuðningi við svæði þar sem olíuvinnslan er umtalsverður þáttur í atvinnulífinu. Þar er fyrst og fremst um að ræða átt við Esbjerg og nærsveitir á vesturströnd Jótlands. P

Lofstlagsráð Dana fagnar

Peter Mølgaard, formaður Loftslagsráðs Danmerkur, fagnaði samkomulaginu í morgun. Hann segir að þetta gagnist umhverfismálum af því að það er fyrirmynd fyrir aðra, sagði Peter Mølgaard. Dan Jørgensen, orkumálaráðherra Danmerkur, tók undir að mikilvægasta niðurstaðan væri að Danir yrðu fyrstir þjóða til að ákveða að hætta olíuvinnslu. 

Almenn ánægja með samkomulagið

Umhverfisverndarsinnar í Danmörku hafa almennt fagnað samkomulaginu og því er almennt vel tekið, þannig segir í leiðara í dagblaðinu Politiken að þetta sýni að mikill meirihluti danskra þingmanna hafi staðfest að hægt sé að sýna bæði umhverfis- og fjárhagslega ábyrgð.
 

 

bogia's picture
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV