Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Veðurviðvaranir um allt land

Snjómokstur á Egilsstöðum
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - Ljósmynd
Gul viðvörun er í gildi fyrir allt landið í dag nema á Suðausturlandi þar sem appelsínugul viðvörun verður í gildi til hádegis á morgun. Norðan stormi, norðan hvassviðri eða norðan hríðarveðri er spáð alls staðar á landinu í dag og á morgun og allt að 12 stiga frosti. Víða er takmarkað skyggni og slæm færð.

Samkvæmt spá Veðurstofu Íslands eru veðurhorfur á landinu til miðnættis í kvöld þessar: Norðan 18-25 m/s, en hvassara í vindstrengjum sunnan Vatnajökuls. Snjókoma eða él og skafrenningur N- og A-lands, en annars úrkomulaust að kalla. Fer að draga úr vindi NV-til seint í kvöld. Frost 0 til 8 stig, mildast syðst.

Lægir á morgun, styttir upp og herðir frost. Norðlæg átt 3-13 m/s annað kvöld, hvassast A-til. Stöku él fyrir austan en þurrt og víða bjart annars staðar. Frost 2 til 12 stig, mildast við SA-ströndina.

Á höfuðborgarsvæðinu er spáð norðan 10-18 m/s en mun hvassara verður á Kjalarnesi. Líkur á dálitlum éljum og frost 2 til 7 stig. Lægir í nótt og á morgun, norðaustan 3-8 og léttskýjað. Frost verður 4 til 9 stig.

Horfur á landinu næstu daga: Hvöss norðanátt framan af föstudegi með éljum N- og A-lands, en lægir síðan og styttir smám saman upp. Annars bjartviðri. Útlit fyrir fremur hæga vinda með björtu veðri víða um land um helgina, en stöku éljum við ströndina. Mjög kalt í veðri, en minnkandi frost eftir helgi.

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir