Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Styttist í fyrsta farþegaflug með Boeing 737 MAX

03.12.2020 - 00:38
epa07432416 An American Airlines Boeing 737-800 departs from Ronald Reagan-National Airport in Arlington, Virginia, USA, 12 March 2019. The Boeing 737 Max 8 aircraft has come under scrutiny after similar deadly crashes in Ethiopia and Indonesia. Several countries and airlines have grounded 737 Max 8 planes.  EPA-EFE/ERIK S. LESSER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Boeing 737 MAX þoturnar færast nær því að verða teknar í almenna notkun. Blaðamönnum var fyrr í dag boðið í fimmtíu mínútna tilraunaflug með slíkri frá Dallas í Texas til Tulsa í Oklahóma. Þotan var frá American Airlines og lenti í ókyrrð í fluginu að sögn fréttamanns AFP fréttastofunnar.

Á leiðarenda greindu vélvirkjar, tæknimenn og verkfræðingar frá þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til svo tryggja megi öryggi vélanna. Flugmenn lögðu einnig orð í belg um þær flugþjálfunaraðferðir sem þeim ber að fylgja.

Bannað hefur verið að fljúga Boeing 737 MAX þotum um tuttugu mánaða skeið. Tvö slys sem kostuðu samtals 346 mannslíf urðu til þess að talið var öryggi þotnanna væri ábótavant. 

Loftferðaeftirlit Bandaríkjanna heimilaði notkun vélanna í nóvember, brasilísk yfirvöld hafa gert hið sama og búist er við jákvæðu svari frá evrópskum flugmálayfirvöldum í lok janúar.

Endanleg niðurstaða um hvað Kínverjar muni gera liggur ekki fyrir. Talsmenn American Airlines gera ráð fyrir að fyrsta ferðin með farþega verði farin 29. desember næstkomandi en þangað til verður farið í þrjár tilraunaflugferðir til viðbótar.