Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Google þarf að svara fyrir uppsögn starfsmanna

03.12.2020 - 07:06
epa07670239 A Google logo is displayed at the Google offices in Berlin, Germany, 24 June 2019.  EPA-EFE/HAYOUNG JEON
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandaríska tæknifyrirtækið Google hefur tvær vikur til að bregðast við ásökunum um njósnir um þá starfsmenn sína sem hafa staðið í andófsaðgerðum við fyrirtækið.

Stjórnarstofnun sem kemur að ágreiningi milli fyrirtækja og starfsmanna (NLRB) bar fram kvörtun fyrir hönd fjögurra starfsmanna sem Google sagði upp störfum fyrir ári.

Starfsmennirnir kröfðust sjálfir opinberrar rannsóknar á uppsögn sinni sem þeir eru fullvissir um að tengist baráttu þeirra fyrir bættum kjörum starfsfólks Google.  

Talsmenn fyrirtækisins staðhæfa að ástæða uppsagnarinnar hafi verið að starfsmennirnir brutu öryggisreglur þess. Í kvörtun starfsmannana segir að Google hafi fylgst þeim við gerð skyggna til stuðnings verkalýðsbaráttu og hafi yfirheyrt þá um atferli þeirra utan vinnustaðar.

Þeim hafi verið hótað refsingu fyrir að hafa leitað út fyrir raðir fyrirtækisins vegna umkvartana um atvik sem gerðust þar. Fyrirtækið hafi jafnframt búið til sérstakar reglur fyrir starfsfólk sem vitað var að ástundaði andóf af einhverju tagi.

Laurence Berland einn starfsmannanna segir ljóst að aðgerðir Google hafi ekki verið verjandi og í raun ólöglegar. Talskonar tæknirisans kveður fyrirtækið bera virðingu fyrir starfsmönnum sínum en hart verði brugðist við öllum tilraunum til að grafa undan því.  

Google þarf að bregðast við kvörtun starfsmannanna fyrir 16. desember næstkomandi en málið verður tekið fyrir í San Fransico 12. apríl á næsta ári.