Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Erfiðara fyrir almannaheillafélög að fá sjálfboðaliða

03.12.2020 - 09:14
Mynd: Samsett mynd / RÚV
Innviðir margra almannaheillafélaga hafa veikst í faraldrinum og það hefur reynst þeim erfiðara að verða sér úti um sjálfboðaliða, að sögn Jónasar Guðmundssonar, formanns Almannaheilla, regnhlífarsamtaka slíkra félaga.

Hann segir að almannaheillafélög hafi gegnt mikilvægu hlutverki í faraldrinum og strax verið kölluð til, sem hafi meðal annars sést á upplýsingafundum almannavarna. Þar hafi fulltrúar þeirra verið áberandi – Jónas nefnir í því sambandi Rauða krossinn, björgunarsveitir, Heimili og skóla og Landssamband eldri borgara. Áhrif faraldursins hafi verið margvísleg á almannaheillafélög, sem hafi mörg hver þurft að gjörbreyta sinni starfsemi og finna nýjar leiðir til að nálgast skjólstæðinga sína.

„Það er alveg ljóst að innviðir þeirra margra hafa veikst í gegnum þessa baráttu,“ sagði Jónas á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. „Fjárhagur, já, að einhverju leyti – þau hafa átt erfiðara svolítið með að ná í sjálfboðaliða, sem er þeirra mikilvægasta uppspretta fyrir vinnuafl.“

Almenningur ekki látið af fjárstuðningi sínum

Þótt hið opinbera hafi ekki mætt félögunum með beinum, almennum styrkjum eins og víða erlendis er Jónas þrátt fyrir allt bjartsýnn, hann segir að nú sé í gangi rannsókn við Háskóla Íslands á áhrifum faraldursins á almannaheillasamtök fyrstu niðurstöður gefi vísbendingu um að almenningur hafi upp til hópa ekki látið af stuðningi sínum við samtökin.

„Það hefur verið mikil þolinmæði í þeim hópi til að halda áfram að styðja við almannaheillasamtök í þessum verkefnum, þrátt fyrir þessa annmarka sem þú nefndir – að það kannski þurfti að aflýsa mörgum fjáröflunarviðburðum og þessum venjulegu leiðum sem þau hafa haft til að leita eftir stuðningi,“ segir Jónas Guðmundsson.

Heyra má viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.