Bóluefnið gegn kórónuveirunni - sögulegt spretthlaup

Mynd með færslu
 Mynd: Frauke Riether - Pixabay
Veiran sem hefur náð heimsyfirráðum á nokkrum mánuðum, SARS-CoV-2, er þó blessunarlega þannig byggð að það er auðveldara að þróa bóluefni gegn henni en mörgum öðrum veirum. Samvinna færustu vísindamanna heimsins virðist ætla að skila okkur bóluefni sem á að koma lífinu í nokkuð eðlilegt horf, á mettíma. Í þessari grein verður reynt að skýra þróun bóluefnis, gaddaprótein, mótefni, markaðsleyfi, tilraunir og það sem framundan er á Íslandi - gangi allt eftir.

Nú eru þrjú bóluefni í áfangamati hjá Lyfjastofnun Evrópu, sem er í raun flýtimeðferð sem má nota þegar mikið liggur við. Eins og núna. Framleiðendurnir AstraZeneca, Moderna og Pfizer, verða sýna fram á að þátttakendur í bóluefnatilraunum þeirra hafi minnst tveggja mánaða nokkuð skaðlausa reynslu af efninu. Í vikunni veitti breska lyfjaeftirlitið bóluefni þess síðastnefnda, Pfizer, samþykki og hefst dreifing í Bretlandi í næstu viku. Og það eru líka jákvæð teikn á lofti á Íslandi, því í dag tilkynnti heilbrigðisráðherra að búið væri að tryggja skammta fyrir stóran hluta þjóðarinnar. Hún stefnir á hjarðónæmi Íslendinga á fyrri hluta næsta árs. En ýmislegt þarf að ganga upp til að svo verði. 

Hvað er bóluefni? 

Bóluefni eru lyf sem er sprautað í dýr til að gera þau ónæm fyrir ákveðnum smitsjúkdómum. Lyfin eru yfirleitt gerð úr veikluðum veirum eða bakteríum, sem eru hannaðar þannig að þær valdi litlum eða engum skaða. Þau virkja samt varnir líkamans sem eiga svo að koma í veg fyrir alvarleg veikindi af völdum sjúkdómsins. Flest bóluefni í dag eru byggð á dauðum, óvirkum eða veikluðum sýklum, eða einangruðum efnum úr þeim. Magnús Jóhannsson, prófessor í líflyfjafræði við Háskóla Íslands, fjallar á Vísindavefnum um fyrsta bóluefnið, sem var uppgötvað seint á 18. öld af lækninum Edward Jenner. Hann áttaði sig á að þau sem höfðu fengið kúabólu, sem er leiðindakvilli sem veldur vörtum, veiktust ekki af bólusótt, sem var afar banvænn og skæður sjúkdómur. Jenner áttaði sig á að kúabólusýking bjó til mótefni gegn bólusótt, þar sem veirurnar tvær eru náskyldar. 

Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia
Lítill drengur í bólusetningu við bólusótt, hvaðan nafnið er komið.

Hvað er mótefni? 

Mótefni myndast í blóði og gera ákveðna sýkla skaðlausa ef þeir berast í líkamann. Eftir bólusetningu eða sýkingu myndast mótefnin og vernda einstaklinginn fyrir viðkomandi sýkli. Það tekur yfirleitt fimm til tíu daga, stundum lengur, fyrir mótefnin að ná fullum styrk. 

Af hverju er ein bólusetning ekki alltaf nóg? 

Sumar veirur, eins og inflúensan, stökkbreytist á hverju ári. Því þarf að þróa ný bóluefni þess á milli, því nýir stofnar sem eru ónæmir fyrir mótefnum sem mynduðust eftir sprautu ársins á undan. Svo eru bóluefni líka misgóð og endast mislengi. Sum þarf að gefa tvisvar eða þrisvar sinnum til að veita góða vörn. „Hið fullkomna bóluefni er nóg að gefa einu sinni, verkunin endist út ævina og aukaverkanir eru engar.” 

Hvernig eru bóluefni þróuð? 

Þegar búið er að einangra efnið sem á að nota hefjast rannsóknir. Svo hefjast tilraunir á dýrum, sem eru yfirleitt gerðar í nokkrar vikur á að minnsta kosti tveimur dýrategundum. Dýrunum er svo slátrað og þau krufin til að kanna merki um skaða. Ef allt er í góðu þar, hefjast tilraunir á mönnum. Þær eru í fjórum skrefum.

 1. Lyfinu er sprautað í nokkrar heilbrigðar manneskjur og kannað er hvernig lyfið þolist.
   
 2. Lyfinu er sprautað í mun stærri hóp fólks og það rannsakað í smáatriðum. Þar er skoðað hvað verður um lyfið í líkamanum, hvaða skammtar passa og hvort einhver lækning sé sjáanleg. 
   
 3. Lyfið er gefið miklum fjölda manns, tugum þúsunda jafnvel, og vandlega fylgst með aukaverkunum. Þetta þarf að ganga vel svo bóluefnið geti komist í almenna notkun. 
   
 4. Fjórða skrefið er svo eftir að bóluefnið er komið á markað. Vandlega er fylgst með aukaverkunum. En þá er verið að gefa lyfið mjög miklum fjölda og þess vegna hægt að finna sjaldgæfar aukaverkanir.
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Grafík
Þó að við séum flest sennilega farin að þekkja útlit kórónuveirunnar, gera færri sér grein fyrir hlutverki gaddanna sem stingast úr henni.

Gaddaprótein til bjargar

Fyrirtækin þrjú sem eru nú undir smásjánni hjá Lyfjastofnun Evrópu notast ekki öll við sömu tækni í sinni þróun. Moderna og Pfizer nota svokallaða mRNA-tækni, en AstraZeneca notast við genabreytta adenóveiru. Bæði mRNA og adenóveiran virkja framleiðslu líkamans á gaddapróteinum. Og það eru einmitt gaddaprótínin sem verja okkur gegn Covid-19. Ónæmiskerfið lítur á þau sem framandi fyrirbæri og býr til varnir með mótefni og T-frumum, sem ver okkur síðan gegn sýkingu kórónuveirunnar. Genabreytta adenóveiran virkjar framleiðslu fruma á gaddapróteinunum góðu, án þess að fjölga sér eða valda sjúkdómi. 

Hvað eru RNA bóluefni? 

Erfðaefni sumra veira, til dæmis kórónuveirunnar (SARS-CoV-2) byggir á RNA. RNA er kjarnsýra, eins og systir hennar DNA, en hún geymir ekki erfðaefni, heldur leikur RNA lykilhlutverk í starfsemi gena. Á mjög einfölduðu máli eru tekin afrit af öllum virkum genum, sem kallast mRNA. Þau móta svo prótein, meðal annars gaddaprótein. 

 • mRNA (genaafritið) ræður því hvernig prótein veirunnar eru í laginu. Eins og flestir þekkja, lítur kórónuveiran út eins og bolti alsettur eins konar göddum. Einn gaddurinn er hannaður til að stinga gat á frumur í lífverum svo kórónuveiran geti komist inn í þær, fjölgað sér og valdið sýkingu. 
   
 • Nú hafa vísindamenn náð að einangra gaddapróteinið í veirunni og búið til afrit af því. Því er síðan blandað í örsmáar fituagnir, sem er lykilatriðið í bóluefnum Pfizer og Moderna. Þegar lyfinu er svo sprautað í okkur sýkjast frumurnar ekki, heldur fylgja þær fyrirmælum frá RNA-kjarnsýrunni og búa til gaddinn. En í stað þess að veikjast af Covid-19, myndar líkaminn mótefni
   
 • Þróun RNA bóluefna tekur alla jafna styttri tíma því það er nokkuð einfalt að framleiða RNA á tilraunastofu. RNA bóluefni hafa aldrei áður fengið markaðsleyfi, en hafa verið í þróun í fjölda ára, meðal annars gegn HIV, Zika og inflúensu. Það þarf að geyma flest RNA bóluefni við mjög lágt hitastig svo það getur reynst flókið að flytja þau og geyma. 
Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia
Skýringamynd á ensku sem Páll Þórðarson prófessor birti á Facebook síðu sinni um RNA bóluefni.

Vísindamenn sem eiga skilið klapp

Páll Þórðarson, efnafræðingur og prófessor við háskólann í Sydney í Ástralíu, birti færslu á Facebook um helgina þar sem hann fjallar um fólkið í framlínunni við þróun mRNA bóluefnisins og vitnar í grein Statnews um bóluefnakapphlaupið. 

Katalin Karikó er ungversk vísindakona sem hefur unnið með mRNA í þrjá áratugi. Hún er núna varaforstjóri hjá þýska BioNTech fyrirtækinu sem bjó til "Pfizer/BioNTech" bóluefnið. Drew Weissman er bandarískur sérfræðingur í ónæmisfræði og samstarfsmaður Karikó við Háskólann í Pennsylvaniu. Páll segir að saman hafi þau náð að „skýla RNA frá ónæmiskerfinu okkar, sem yfirleitt hakkar mRNA í spað áður en það getur orðið að gagni.” Kanadamaðurinn Derrick Rossi notaði mRNA til að endurforrita venjulegar frumur yfir í fósturstoðfrumur og vakti svo mikla athygli vísindasamfélagsins á mRNA að úr varð fyrirtækið Moderna, sem hefur meðal annars unnið að þróun bóluefna gegn Ebólu og Zika og krabbameinslækningum. Páll nefnir einnig Þýsk-Tyrknesku hjónin Ugur Sahin og Özlem Türeci sem stofnuðu BioNTech til að þróa krabbameinslækningar byggðar á mRNA og réðu síðan til sín Katalin Karikó 2013 sem varaforstjóra. 

Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia
Efst frá vinstri: Derrick Rossi, Drew Weissman, Ugur Sahin, Katalin Karikó og Özlem Türeci. Samsett mynd.

Heimsfaraldur góður fyrir bóluefni

Kolbeinn Guðmundsson, yfirlæknir hjá Lyfjastofnun, segir það hafa vakið verðskuldaða athygli, og spurningar, hversu hröð þróun bóluefnisins hefur verið. En fyrir því séu nokkrar ástæður: Allir eru að leggjast á eitt og vinna saman án þess að fela sín iðnaðarleyndarmál. Þetta er fólk og fyrirtæki sem hafa mikla reynslu í þróun bóluefnis. Og síðast en ekki síst er nóg er til af sýktu fólki. „Faraldurinn er í raun kjöraðstæður fyrir þróun bóluefnis. Eitt er að mæla mótefni en hitt er svo hvort bóluefnið er að gera gagn,“ segir hann. „Vanalega hefði þetta tekið fimm til tíu sinnum lengri tíma.“

Ekkert bendi til þess að bóluefnin hafi aukaverkanir varðandi skammtímaáhrif en langtímaáhrifin sé enn ekki hægt að meta. „En þess verður krafist af öllum fyrirtækjum að þau sýni fram á þessir tugþúsundir einstaklinga sem hafa tekið þátt í tilraunum þeirra séu með minnst tveggja mánaða reynslu.“ Þó að bóluefnin komi á markað í byrjun næsta árs, verður það fyrst í stað sennilega ekki í nægjanlegu magni þannig að það dugi allri heimsbyggðinni.

Mynd með færslu
 Mynd: Alþingi
Svandís Svavarsdóttir segir að hjarðónæmi verði náð á Íslandi á fyrsta fjórðungi næsta árs.

Stór tíðindi í dag

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra tilkynnti nokkuð stór tíðindi í dag. Íslensk stjórnvöld eru búin að gera samning við AstraZeneca um kaup á bóluefni sem duga fyrir 115 þúsund Íslendinga. Í næstu viku, miðvikudaginn 9. desember, verður skrifað undir samning við Pfizer um skammta fyrir 85 þúsund manns og vonir standa til að samningar við Moderna, um skammta fyrir 40 þúsund manns, náist fyrir jól. Gangi þetta allt saman eftir verður búið að tryggja bólusetningar fyrir 240 þúsund Íslendinga. 

Svandís segist gera ráð fyrir því að bólusetningar hefjist á Íslandi fljótlega eftir áramót og vonast til að hjarðónæmi náist fyrstu mánuðum næsta árs. Þá er gert ráð fyrir að um 75 prósent þjóðarinnar verði bólusett. 

„Gera má ráð fyrir að ferlið hefjist fljótlega eftir áramót og að markmiðum bólusetningar verði vonandi náð á fyrsta ársfjórðungi ársins 2021.”

Stjórnvöld vonast til þess að Pfizer fái markaðsleyfi fyrir bóluefninu frá Lyfjastofnun Evrópu 29. desember,  þegar stofnunin tekur ákvörðun um það hvort hún geti mælt með notkun lyfsins. AstraZeneca er heldur ekki komið með markaðsleyfi í Evrópu en gert ráð fyrir að lyfjastofnunin taki ákvörðun um það í janúar. Þá verður bóluefni Moderna sömuleiðis tekið til umfjöllunar þann 12. janúar 2021. 

Þórólfur ekki yfirlýsingaglaður 

Rétt áður en heilbrigðisráðherra tilkynnti tíðindin í dag, undirstrikaði Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir að Lyfjastofnun Evrópu ætti eftir að gefa álit sitt á bóluefni Pfizer. Yrði það jákvætt, myndi dreifing hefjast fljótlega. „En það er ekki hægt að gera ráð fyrir að bólusetning hefjist hér fljótlega eftir áramótin,“ sagði hann.  Spurður hvort búið væri að tryggja bóluefni fyrir alla þjóðina sagði Þórólfur svo ekki vera.

„Við þurfum fleiri skammta, sem eru ekki enn fastir í hendi.“

Hann tók þó af allan vafa um hvort Íslendingar þurfi að borga fyrir að láta bólusetja sig. Það verður „ekki til brúks á einkastofum,” sagði hann. Heilsugæslan og sjúkrahúsin sjá um bólusetningu og bóluefninu verður ekki dreift til annarra stofnana. Alla þarf að bólusetja tvisvar, líklega með tveggja til þriggja vikna millibili. Eftir það líður allt að mánuður þar til viðkomandi er kominn með mótefni.

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Þórólfur sagði á fundi almannavarna í dag að þó að það væru ýmiss teikn á lofti varðandi bóluefni, væri ekki tímabært að koma með stórar yfirlýsingar.

Á að hlusta á lækni eða ráðherra? 

Þær Þórunn Egilsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, vöktu máls á ósamræmi í orðum forstjóra Lyfjastofnunar, sóttvarnarlæknis og svo heilbrigðisráðherra. Á meðan forstjóri Lyfjastofnunar taldi raunhæft að hefja bólusetningu í janúar varaði sóttvarnalæknir við of mikilli bjartsýni og það væri ótímabært að spá fyrir um að hægt yrði að hefja bólusetningar þá.

Svandís sagði þetta skiljanlegar vangaveltur, en staðan væri þessi: Íslensk stjórnvöld kaupa bóluefni af þremur framleiðendum; Pfizer, Moderna og AstraZeneca. Svandís eftir að markaðsleyfi fæst líður einhver tími þar til efnið kemur til landsins. Ekki væri hægt að segja til hvenær það kæmi né hversu mikið. „Miðað við þær upplýsingar sem nú liggja fyrir þá getum við hafið bólusetningar á fyrstu vikum nýs árs og að markmiðum bólusetningar verði náð á fyrsta ársfjórðungi.“ 

03.12.2020 - 17:38