Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ómannað kínverskt far lent á tunglinu

02.12.2020 - 04:37
epa08853705 The full moon shines next to a Christmas tree in Mallorca, Balearic Islands, Spain, 30 November 2020.  EPA-EFE/CATI CLADERA
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Kínverska tunglfarið Chang'e-5 lenti á tunglinu í gær að sögn sérfræðinga Geimferðastofnunar Kína. Tilgangur ferðarinnar er að safna um tveimur kílógrömmum af yfirborðsefnum og tunglgrjóti svo vísindamenn geti fræðst enn frekar um uppruna tunglsins.

Takist Kínverjum ætlunarverk sitt feta þeir í fótspor Bandaríkjamanna og Sovétmanna sem tóku sýni af yfirborði tungslins og fluttu til jarðar á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar.

Fyrirhugað er að verja tveimur sólarhringum við söfnun sýna með hátæknilegum búnaði. Meðal annars verður borað tvo metra undir yfirborð tunglsins til að ná sem fjölbreyttustum sýnum.

Við svo búið heldur farið til jarðar að nýju og er ætlað að lenda í Innri-Mongólíu síðar í desember.