Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

„Okkur ber að taka þetta alvarlega“

epa06469858 An interior view prior to the Grand Chamber hearing in the case of political activist, opposition leader, anti-corruption campaigner and popular blogger Aleksey Navalnyy vs Russia at the European Court of Human Rights in Strasbourg, France, 24 January 2018. The case concerns the arrest of Aleksey Navalnyy on seven occasions at different public gatherings, and his subsequent prosecution for administrative offences.  EPA-EFE/PATRICK SEEGER
 Mynd: EPA
Formaður Lögmannafélags Íslands segir viðbúið að niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu leiði til þess að krafist verði endurupptöku í málum sem komið hafa fyrir Landsrétt. Slæmt sé fyrir lýðræðisríki að fá á sig áfellisdóm af þessu tagi.

 

Yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu staðfesti í gær fyrri niðurstöðu dómstólsins í Landsréttarmálinu. Allir 17 dómarar deildarinnar voru sammála um að íslenska ríkið hefði brotið gegn 6. grein mannréttindasáttmálans, en hún fjallar um rétt einstaklinga til réttlátrar málsmeðferðar.

Dómstóllinn kvað upp fyrri úrskurð sinn í mars í fyrra, þar sem hann komst að þeirri niðurstöðu að Landsréttur hefði verið ólöglega skipaður. Málinu var svo vísað til yfirdeildar að beiðni íslenskra stjórnvalda.

Berglind Svavarsdóttir formaður Lögmannafélags Íslands segir að niðurstaða dómstólsins sé afdráttarlaus. Stjórnvöldum beri að taka mark á þessari niðurstöðu og gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig.

„Okkur ber að taka þetta alvarlega. Og þetta er eins og dómurinn kemst að niðurstöðu um að þetta er skýrt brot og þetta eru mjög alvarlegar athugasemdir sem eru gerðar við þessa málsmeðferð. Og þeir eru að senda skýr skilaboð um það að pólitísk afskipti af dómsvaldinu þau eru ekki liðin,“ segir Berglind.

Berglind segir að þrátt fyrir að niðurstaða Mannréttindadómstólsins eyði ákveðinni réttaróvissu sem ríkt hefur hér á landi sé líklegt að krafist verði endurupptöku í einhverjum málum sem hafa komið fyrir Landsrétt.

„Þarna er um brot á 6. grein mannréttindasáttmálans að ræða og að þessi dómstóll hafi ekki verið rétt skipaður. Þó svo að dómstólinn hafi komist að þessari niðurstöðu í þessu tiltekna máli þá kunna önnur mál að vera með einhverjum öðrum þeim hætti að það kunni að vera rétt að endurupptaka þau en það verður að vera endurupptökudómstólsins að skera úr um það,“ segir Berglind.

Hún segir slæmt fyrir íslenska ríkið að fá þennan dóm á sig.

„Auðvitað er alltaf slæmt fyrir lýðræðisríki að fá á sig áfellisdóm um að það sé verið að brjóta á grundvallarreglum í mannréttindasáttmálanum,“ segir Berglind.