Mynd: Veðurstofa Íslands - Kort

Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.
Jarðskjálfti yfir 3 við Grímsey í morgun
02.12.2020 - 13:35
Jarðskjálfti af stærðinni 3,1 varð aust-suðaustur af Grímsey skömmu fyrir hádegi í dag. Nokkrir minni eftirskjálftar hafa fylgt í kjölfarið.
Veðurstofu Íslands hafa ekki borist tilkynningar um að skjálftinn hafi fundist í byggð.
Skjálftinn mældist klukkan 11:38. Tveimur mínútum síðar mældist annar skjálfti á sama stað af stærðinni 2,2 og stundarfjórðungi síðar sá þriðji sem var 2,1 af stærð.
Nokkrir minni skjálftar hafa mælst á svæðinu.
Grímsey liggur rétt við Tjörnesbrotabeltið, sem er annað þverbrotabelta hér á landi og tengir suðurenda Kolbeinseyjarhryggjar við norðurgosbeltið. Um 20.000 skjálftar hafa mælst á Tjörnesbrotabeltinu síðan jarðskjálftahrina hófst þar 19. júní í sumar.