Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Handviss um að riða greinist ekki í nokkurri skepnu

02.12.2020 - 12:35
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Lokið var við að farga um 600 fjár á bænum Syðri-Hofdölum í Skagafirði í gær. Bændur höfðu farið fram á að niðurskurður yrði stöðvaður því ekkert smit greindist í um 160 gripum af bænum sem komust í návígi við smitaðan hrút. Matvælastofnun segir að ekki sé hægt að útiloka að smit greinist í hjörðinni.

„Svona er bara staðan"

„Það var allt fé skorið í gær og flutt frá okkur suður í brennslu hjá Kölku. Þetta voru eitthvað í kringum 600 hausar held ég. Það voru tekin 160 sýni og svo að sjálfsögðu verður tekin sýni úr öllum þessum gripum sem fóru núna og ég er náttúrlega alveg handviss um að það greinist ekki í nokkurri skepnu en svona er bara staðan," sagði Atli Már Traustason bóndi á Syðri-Hofdölum.

MAST sagði ekki verjandi að stöðva niðurskurð

Í tilkynningu frá Matvælastofnun í gær kom fram að ekki væri verjandi að hverfa frá niðurskurði á fé á bænum eins og ábúendur hefðu óskað eftir. Þótt riða hefði ekki greinst í þeim 160 kindum sem var lógað í fyrsta niðurskurði væri ekki hægt að útiloka að stofninn væri smitaður. Hjörðin væri líklega smituð en meðgöngutími riðu væri tvö til þrjú ár. 

„Margar smitleiðir voru á milli fjárins sem umgekkst hrútinn sem greindist með riðu og allrar hjarðarinnar, sérstaklega í sauðburði en þá er smithætta mest. Þó riða hafi ekki greinst í fénu sem umgekkst hrútinn beint, er ekki þar með sagt að það hafi ekki verið smitað.“ segir í tilkynningu frá MAST.

Næmni prófana aðeins 66%

Næmi prófsins sem notað er til að greina riðusmit getur verið talsvert lágt, eða um 66 prósent. Þess vegna finnst ekki riðusmit í öllum kindum þó þær séu smitaðar. Næmið fer meðal annars eftir því hversu langur tími er liðinn frá smiti. 

MAST sendi Atvinnu og nýsköpunarráðuneytinu þennan rökstuðning sinn við andmælum sem Landbúnaðarnefnd Skagafjarðar sendi til ráðuneytisins fyrir hönd ábúenda á Syðri Hofdölum. Því hafnaði ráðuneytið beiðninni um að niðurskurður verði stöðvaður.

Óvissan það versta í þessu öllu

„Það er þannig að samkvæmt því sem Matvælastofnun segir þá er frekar stutt liðið frá því að þessi hrútur stoppar hjá okkur hér í ákveðinn tíma og það er ekki nema 10 mánuðir líklega frá því að hann blandast þessu fé sem hann var notaður í og það er það stuttur meðgöngutími, ef að smit hefur orðið, sem svo sem enginni veit. Það er kannski það versta í þessu öllu saman," sagði Atli Már. 

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Lokið var við að farga um 600 fjár á bænum Syðri-Hofdölum í Skagafirði í gær.