Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fleiri flytjast á mölina

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Íbúum Reykjavíkurborgar hefur fjölgað um 2.051 á seinustu 12 mánuðum. Næst mest er fjölgunin í Garðabæ þar sem íbúum hefur fjölgað um 744 og í Mosfellsbæ hefur íbúum fjölgað um 496.

Þetta kemur fram í tölum Þjóðskrár Íslands. Hlutfallslega hefur fjölgunin verið mest í Fljótsdalshreppi eða um 12 prósent. Íbúum sveitarfélagsins fjölgaði reyndar úr 86 í 98 eða um 12. Hlutfallslega varð mest fækkun í Svarbarðsstrandarhreppi eða um tæp 10 prósent og í Reykhólahreppi um rúm 9 prósent. 

Þegar litið er til þeirra 69 sveitarfélaga sem eru á landinu varð fækkun í 24 þeirra. Hvað landshluta varðar varð lítilsháttar fækkun á Vestfjörðum, en þar fækkar íbúum um 18 á milli ára eða um 0,3 prósent. Í öðrum landshlutum varð ekki fækkun. Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði íbúum um 1,4 prósent eða um 3.352 íbúa. Sunnlendingum fjölgaði einnig talsvert, eða um 1,8 prósent eða um 542 íbúa.

Á Norðurlandi vestra fjölgar íbúum um 1,2 prósent eða um 86 íbúa. Á Austurlandi fjölgar íbúum um 104 eða eitt prósent. Á Suðurnesjum fjölgar íbúum um 1,3 prósent eða 362 íbúa. Litlar breytingar er á Norðurlandi eystra og Vesturlandi.