Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Bakvörðurinn á Vestfjörðum boðar skaðabótamál

02.12.2020 - 14:47
Mynd með færslu
 Mynd: Helgi Hjálmtýsson - Facebook
Anna Aurora Waage Óskarsdóttir, sem var grunuð um að hafa villt á sér heimildir þegar hún var bakvörður á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík, ætlar í skaðabótamál við fjölmiðla, íslenska ríkið og ætlar að endurheimta æru sína. Héraðssaksóknari hefur ákveðið að gefa ekki út ákæru í málinu. Forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða segist feginn að málinu sé lokið.

Lögmaður Önnu sendi frá sér yfirlýsingu nú á þriðja tímanum þar sem hún er nafngreind. 

Þar kemur fram að handtaka hennar hafi vakið mikla athygli og að hún hafi ekki svarað fjölmiðlum þrátt fyrir mikinn ágang þeirra.  Umfjöllun hafi verið óvægin en ekki síður athugasemdir netverja. 

Í yfirlýsingunni segir að Anna hafi verið hreinsuð af öllum sakáburði og nú ætli hún að endurheimta mannorð sitt og æru. Mikil vinna sé framundan við að sækja bætur og ómerkja rangindi og ærumeiðingar „sem fjölmiðlar og netverjar hafa viðhaft um hana.“

Hún ætlar jafnframt að höfða mál á hendur íslenska ríkinu þar sem handtakan hennar hafi verið algerlega tilefnislaus og farið fram á óþarflega niðurlægjandi og meiðandi hátt.

Í yfirlýsingunni er einnig vitnað til bréfs héraðssaksóknara þar sem tilkynnt er að málið hafi verið látið niður falla.  Þar kemur fram að Anna hafi í umsókn sinni tilgreint að hún væri sjúkraliðanemi og í ráðningarsamningi hafi starf hennar verið tilgreint sem aðhlynning. „Ekkert hefur komið fram við rannsókn málsins sem gerir það líklegt að kærða hafi blekkt þá sem réðu hana til starfa og sagði þeim að hún væri menntuð sem hjúkrunarfræðingar eða að hún væri með aðra sambærilega menntun.“

Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, vildi sem minnst tjá sig um ákvörðun saksóknara en sagðist feginn að málinu væri lokið.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV