Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Ákærður fyrir að stofna lífi 24 starfsmanna í háska

02.12.2020 - 20:02
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Héraðssaksóknari hefur ákært eiganda starfsmannaleigu fyrir hættubrot og brot gegn lögum um brunavarnir. Hann er í ákærunni sagður hafa látið útbúa búseturými fyrir starfsmenn starfsmannaleigunnar í iðnaðarhúsnæði sem hann átti sjálfur við Smiðshöfða. Í ákærunni kemur fram að þetta hafi verið gert án tilskilinna leyfa og án þess að gera nauðsynlegar ráðstafanir varðandi brunavarnir sem hafi verið alls ófullnægjandi.

Fram kemur í ákærunni að lögreglan hafi fengið slökkviliðsstjórann í Reykjavík til að skoða eldvarnir í húsinu í febrúar fyrir tveimur árum.  Þá höfðu mennirnir voru búsettir í húsnæðinu í þrjá mánuði. 

Við úttekt slökkviliðsins hafi meðal annars komið í ljós að engin brunahólfun var í húsnæðinu til að takmarka útbreiðslu elds og reykjar, flóttaleiðir voru ófullnægjandi, innveggir og gistirými voru úr auðbrennanlegu efni, ástand raflagna var óásættanlegt og skapaði eldhættu auk þess sem fram fór í húsnæðinu starfsemi sem fól í sér íkveikjuhættu. 

Saksóknari telur að með þessu hafi maðurinn í ábataskyni og á ófyrirleitin hátt stofnað heilsu og lífi 24 starfsmanna starfsmannaleigunnar í augljósan háska. Fram kemur í ákærunni að maðurinn sé búsettur í Noregi og að ákæran hafi verið gefin út í byrjun október. Hún verður þingfest í næstu viku.

Hávær umræða hefur verið um búsetu erlends verkafólks eftir mannskæðan bruna við Bræðraborgarstíg í júní.  Framkvæmdastjóri Eflingar sagði  í fréttum RÚV að félagið aðstoðaði í auknum mæli félagsmenn sem ættu húsnæði sitt undir vinnuveitanda.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV