Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Áform í barnafrumvarpi lofa góðu

02.12.2020 - 14:39
Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Formaður Félagsráðgjafafélags Íslands og framkvæmdastjóri Heimilis og skóla fagna nýju frumvarpi Ásmundar Einars Daðasonar félags- og barnamála-ráðherra um velferð barna og samþætta þjónustu við börn sem kynnt var fyrr í vikunni. Þær segja áformin sem felast í frumvarpinu lofa góðu, en það standi og falli með góðri samvinnu þeirra sem vinni að á málum barna.  

Stór kerfisbreyting

Kostnaður samfélagsins vegna áfalla í barnæsku er áætlaður 100 milljarðar króna á ári. Með frumvarpinu er stefnt að því að lækka þennan kostnað verulega þegar til lengri tíma er litið. Fjárhagslegi ávinningurinn komi ekki í ljós fyrr en að áratug liðnum, en sá félagslegi fljótlega. Ásmundur Einar sagði í Speglinum fyrr í vikunni að frumvarpið feli í sér gríðarlega stóra kerfisbreytingu.  Markmiðið sé meðal annars að loka götum í velferðarkerfinu. 

Kerfin ekki talað vel saman

Hrefna Sigurjónsdóttir framkvæmdastjóri Heimilis og skóla segir ánægjulegt að sjá þetta verða að veruleika. "Það hefur lengi verið vandamál að mismunandi kerfi, sem eiga að halda utan um málefni barna, hafa ekki talað nógu vel saman. Það er mjög ánægjulegt að sjá að það sé að gerast núna. Við bindum miklar vonir við að það verði ýmsar úrbætur.  Vandinn hefur líka falist í því að biðlistar hafa verið langir eftir þjónustu og foreldrar sem hafa þurft aðstoð hafa kvartað undan því að hafa þurft að fara á marga staði. Og stundum er eins og skilaboðin berist ekki á milli" segir Hrefna. 

Ríkar skyldur um samstarf í núgildandi lögum

Steinunn Bergmann formaður Félagsráðgjafafélags Íslands segist fagna þessari vinnu. Hugað sé að því að tryggja aðgengi að viðeigandi samþættri þjónustu fyrir börn án hindrana, þar sem tryggja á réttindi barna í samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar. "Þess vegna er þetta mikilvægt skref í íslensku samfélagi" segir Steinunn. 

"Í þeirri löggjöf sem við höfum í dag eru samt mjög ríkar skyldur um samstarf. Það eru ákvæði um þær skyldur í barnaverndarlögunum og lögum um grunnskóla og leikskóla, bæði að styðja við fjölskyldurnar, foreldra- og uppeldishlutverkið og eiga samstarf. En þetta hefur kannski ekki alltaf gengið eftir eins og maður hefur viljað. Þannig að ég fagna mjög þessum áformum ráðherra að fara af stað með þetta" segir Steinunn. 

Mikilvægt að grípa snemma inn í

En eitt eru góð áform í frumvarpi, annað er að koma hlutunum í verk. Hrefna Sigurjónsdóttir segir að vonandi mun frumvarpið stuðla að einhvers konar úrbótum.

"Það þarf samt sem áður að bæta inn auknum úrræðum og passa að það séu nægar bjargir fyrir þennan fjölda sem þarf aðstoð. Svo er gríðarlega mikilvægt að grípa snemma inn í til þess að við séum síður með þung mál í kerfinu sem krefjast aukinna úrræða. Þess vegna er svo mikilvægt að leggja áherslu á þennan snemmbæra stuðning. Að fólk fái aðstoð strax og að það þurfi ekki að vera stór og mikil mál. En því fyrr sem fjölskyldur fá hjálp því líklegra er að málin vindi ekki upp á sig og leysist bara farsællega" segir Hrefna. 

Vantar félagsráðgjafa alls staðar

Steinunn: "Þetta getur alveg gengið. Það er ekki víst að þetta klikki. Við verðum þá öll að leggja okkar að mörkum og við þurfum að líta í öll horn. Félagsráðgjafafélagið hefur í yfir áratug bent á að það er algjörlega undirmannað inni í barnaverndinni.

Ef við berum okkur saman við Noreg sem er með svipaða löggjöf þá erum við aðeins með um þriðjung af því starfsfólki sem Norðmenn hafa til að sinna þessum málum. Við höfum líka fylgst með Dönum sem hafa farið af stað með verkefni þar sem þeir fjölga félagsráðgjöfum í störfum. Þeir sinna þessari snemmtæku íhlutun sem er módel sem byggt er á í Hafnarfirði og á Austurlandi. Við höfum ítrekað bent á að það vantar félagsráðgjafa í félagsþjónustuna, barnaverndina, skólana og heilsugæsluna. Það eru sárafáar heilsugæslustöðvar sem eru með félagsráðgjafa í starfi hjá sér".   

Dæmi um að núverandi kerfi virki ekki

Hrefna Sigurjónsdóttir segir að dæmin sýni að núverandi stuðningskerfi fyrir börn virki stundum ekki. "En sem betur fer eru dæmi sem sýna hvar vel gengur að vinna með þessi mál eins og t.d. í Brúnni í Hafnarfirði. Svipað prógramm hefur verið í Breiðholti og á Austurlandi þar sem einmitt hefur verið unnið markvisst að því að halda vel utan um málin og að samskipti og upplýsingaflæði sé virkt. Það er hægt að gera ýmislegt með góðum vilja og nauðsynlegum björgum" segir Hrefna.

Foreldrar og börn þurfi ekki að leita að þjónustu

Steinunn Bergmann segir skipta miklu máli að börn og foreldrar hafi gott og öruggt aðgengi að fagfólki í sínu næsta umhverfi. "Að fólk hafi aðgengi að félagsráðgjöfum, sem er sú stétt sem að hefur þessa heildarsýn, er menntuð í því að huga að samþættingu, vinna þvert á kerfi, hafa yfirsýn yfir þá þjónustuþætti í samfélaginu sem geta komið að gagni.

Ég held að ef við mönnum alls staðar og erum tilbúin þannig að foreldrar séu ekki í þeirri stöðu að þurfa alltaf að leita eftir þjónustunni eða finna út úr því hvað er í boði. Að við séum til staðar og að við séum alls staðar þar sem að foreldrar er að koma og fá þjónustu, sama hvar það er. Við þurfum félagsráðgjöf inn í skólana þannig að börnin geti snúið sér til einhvers. Þau eru ekki að fara í félagsþjónustuna eða heilsugæsluna þar sem að þau geta mögulega fengið þjónustu. Þau verða að geta bankað á skrifstofuna á ganginum í skólanum og sagt: "Get ég fengið að tala við einhvern". 

Berum öll ábyrgð

Hrefna: "Það er nú bara eins og Frederick Douglass sagði; það er auðveldara að byggja upp sterk börn en laga brotna menn. Við erum alltaf að hugsa um að vera til staðar og grípa  börnin. 

Ég er einmitt svolítið hugsi yfir málþingi hjá Geðhjálp um daginn. Þar voru börn foreldra með geðraskanir að segja frá sinni reynslu. Það var sláandi það sem þar kom fram hversu týnd þau voru.  Það væri lítið hugsað um hvernig þeim liði og hvað þau væru að ganga í gegnum. Þau kvörtuðu t.d. undan því að heilbrigðiskerfið hefði útskýrt illa fyrir þeim hvað væri að foreldrum þeirra. Það var ekki mikið talað við þau. T.d. hefði verið gott ef að einhver í skólanum hefði spurt hvernig þeim liði í stað þess að tala um slæma mætingu eð léleg verkefnaskil.

Ég held að við þurfum öll að líta okkur nær og hugsa að við berum öll ábyrgð í þessu samhengi, hugsa um hvort annað og vera svolítið vakandi fyrir því hvað er að gerast í lífi barna. En auðvitað þurfa kerfin að tala saman, úrræði þurfa að vera fyrir hendi, og að fólk finni að það sé eitthvert net sem grípur það. Sérstaklega að börn finni það, að þau geti leitað eitthvert ef þeim líður illa eða ef það eru erfiðleikar heima fyrir.