
21 lést á biðlista á tveimur árum
Aðeins hluti umsækjenda nýtir þjónustuna
Þar segir að ekki liggi fyrir upplýsingar um orsök andláts fólks þegar það deyr á meðan það bíður og því sé ekki hægt að draga þá ályktun að biðin hafi orsakað andlátið.
Fjöldi beiðna um innlögn á Vog var 3.339 í fyrra og 3.191 árið 2018. Í svarinu segir að um þriðjungur þeirra sem skrái sig á biðlistann nýti ekki þjónustuna þegar hún býðst. Hluti þeirra sem skrái sig geri það sjálfur án undangengins faglegs mats á því hvort innlagnarþjónusta sé það úrræði sem hentar honum best.
Þann 9. nóvember 2020 voru 518 á biðlistanum á Vogi. Af þeim voru 163 konur, eða 31 prósent, og 355 karlar, eða 69 prósent.
Liggur ekki fyrir afstaða um ríkisrekna afvötnunarstöð
Heilbrigðisráðherra er einnig spurður um afstöðu sína til ríkisrekinnar afvötnunarstöðvar. Í svarinu segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um, eða skoðað sérstaklega, að koma á fót slíkri stöð. Í vor hafi þó verið opnuð á Landspítala sérstök afeitrunardeild fyrir ungmenni sem heyri undir fíknigeðdeild spítalans. Þá segir að Sjúkrahúsið á Akureyri hafi ekki innlagnarþjónustu en sinni bráðatilfellum og einstaklingum með tvíþættan vanda; geðrænan vanda og fíkniefnavanda.
Um stöðu stefnumótunar um meðferð við áfengis- og vímuefnafíkn segir meðal annars að nú sé hafinn undirbúningur að þingsályktun um lýðheilsustefnu sem áherslur í áfengis- og vímuvörnum falli undir. Í henni verði tekið mið af nýsamþykkti heilbrigðisstefnu sem gildi til ársins 2030 og var samþykkt á Alþingi í júní árið 2019. Ráðherrann vísar einnig til stefnu velferðarráðuneytisins í áfengis- og vímuvörnum þar sem sett voru fram sex yfirmarkmið sem embætti landlæknis hefur haft til hliðsjónar.