Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Tjón af völdum bóluefnis gegn COVID-19 verði bótaskylt

01.12.2020 - 07:00
Svandís Svavarsdóttir
 Mynd: RÚV - Skjáskot
Þeir sem verða fyrir tjóni af völdum bóluefnis gegn COVID-19 sem íslensk heilbrigðisyfirvöld leggja til eiga rétt á bótum frá Sjúkratryggingum, hvort sem tjónið má rekja til eiginleika efnisins eða rangrar meðhöndlunar. Þetta kemur fram í nýju frumvarpi sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra lagði fram á Alþingi í gær.

Til rangrar meðhöndlunar getur talist flutningur efnisins, geymsla, dreifing þess eða bólusetningin sjálf. 

Í lögum um sjúkratryggingar gildir almennt að bætur greiðist ekki ef rekja má tjón til eiginleika lyfs sem notað er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð. Með frumvarpinu leggur heilbrigðisráðherra til breytingar á lögunum sem tryggja bótaábyrgð Sjúkratryggingastofnunar vegna bólusetningar gegn COVID-19. Ábyrgðin nær yfir þá sem undirgangast bólusetningu á árunum 2021-2023.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að ríkir almannahagsmunir krefjist þess að stöðva útbreiðslu COVID-19 og því sé brýnt að almenningur sé öruggur um að því fylgi ekki fjárhagsleg áhætta að láta bólusetja sig. 

„Verði frumvarp þetta að lögum mundi það styrkja mjög réttarstöðu þeirra sem bólusettir verða með bóluefni sem íslensk heilbrigðisyfirvöld leggja til, ef til þess kemur að aukaverkanir leiði til líkamstjóns, þrátt fyrir að öllum reglum og góðum framleiðsluháttum hafi verið fylgt við þróun bóluefnisins og framleiðslu. Að því er varðar grundvöll skaðabótaábyrgðar og orsakatengsl væri réttarstaðan hér á landi að þessu leyti sambærileg því sem er í Danmörku og Noregi,“ segir í greinargerðinni. 

Fjárhæð skaðabóta er ákvörðuð á grundvelli reglna skaðabótaréttar, þó með því hámarki sem greinir í lögum um sjúkratryggingar, en fjárhæðin er 11.605.731 krónur miðað við janúar 2020.