Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þrýstingslaust slökkvitæki verra en ekkert

01.12.2020 - 11:13
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Ónýt og þrýstingslaus slökkvitæki finnast víða á heimilum og veita falskt öryggi. Tækin þarf að yfirfara og endurfylla reglulega því annars er hætt við að þau virki ekki þegar á reynir.

Aðventan er runnin upp með sínum kertaljósum og eldhættu. Á slökkvistöðinni á Reyðarfirði á að fara að kveikja eld til að slökkva aftur og sýna hvernig slökkvitækin geta komið á óvart. „Vandamálið er kannski fyrst og fremst að það er sjaldan farið yfir þau og fólkið veit ekki hvort tækið er virkt eða ekki. Það er ekkert að fylgjast með mælunum, hvort mælirinn sé uppi. Það er fullt tækið og það er margt fólk sem heldur að tækið sé í lagi. Það hefur aldrei verið hreyft við því, það er fullt en þrýstingurinn er fallinn og þar með er tækið orðið óvirkt,“ segir Þorbergur Níels Hauksson, aðstoðarslökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð.

Lítil og léleg slökkvitæki varasöm

Stundum hefur verið á markaðnum ýmiss konar slökkvibúnaður sem virkar misvel. Oft er ómögulegt að sjá hvort slíkt er orðið óvirkt eða ekki og dugar oft bara bara á lítinn eld. „Að vera með eins kílóa tæki eða hálfskílóa tæki, það segir bara ekki neitt neitt. Það er bara falskt öryggi,“ segir Þorbergur.

Hann starfrækir líka Slökkvitækjaþjónustu Austurlands sem hefur gengið í hús og komist að því tæki eru í misjöfnu ástandi.  Hægt er að láta fylla á léttvatns- og dufttæki. Dýrara er að fylla á dufttækin en efnið á léttvatnstækin er ódýrara. Aldrei má setja vatn á logandi feiti en í léttvatni er slökkvifroða og því virkar það mjög vel á feiti- og olíuelda.

Segir léttvatnstækin best fyrir heimili

„Bestu tækin til heimilisnota í dag, það myndi ég segja að væru léttvatnstæki, þau eru orðin gríðarlega öflug. Mjög góð á feitiselda og alla elda sem menn geta lent í innanhúss,“ segir Þorbergur.

„Í léttvatnstækjunum þarf að skipta um vatn eða láta skipta um efni í því á fimm ára fresti en alltaf að skoða það árlega, um leið og skipt er um rafhlöðurnar í reykskynjaranum og farið er yfir flóttaleiðirnar að tékka á slökkvitækjunum í leiðinni, segir Guðmundur Helgi Sigfússon, slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð.

Horfa á frétt

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV