Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

„Þetta er búið að vera erfitt og krefjandi ár“

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

„Þetta er búið að vera erfitt og krefjandi ár“

01.12.2020 - 21:51
Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði í fótbolta, hrósaði liðsfélögum sínum í landsliðinu á fjölmiðlafundi í kvöld eftir að ljóst var að Ísland væri búið að tryggja sér keppnisrétt á EM 2022.

„Þetta er geggjuð tilfinning. Þetta er búið að taka sinn tíma. Það hefði verið skemmtilegt að fagna eftir leikinn í dag en það er geggjuð tilfinning að vera búin að tryggja sig á EM,“ sagði Sara Björk, en fyrir aftan hana heyrðist ómur af fagnaðarlátum íslenska hópsins.

Ísland vann Ungverjaland í lokaleik sínum í undankeppni EM í dag, 1-0, en íslenska liðið þurfti að bíða eftir úrslitum úr öðrum leikjum áður en hægt var að fagna EM-sætinu.

„Við vorum með ótrúlega sterkan hóp í þessari undankeppni. Við vorum vel undirbúnar fyrir EM 2017 en persónulega fannst mér við ekki eiga gott mót. Við náðum ekki að sýna hvað í okkur bjó og núna er tækifæri til þess. Hópurinn er búinn að styrkjast og sterkir leikmenn komið inn í hópinn.“

Árið hefur vægast sagt verið erfitt fyrir afreksíþróttafólk og staða landsliðskvennanna verið afar misjöfn eftir löndum. Sara Björk hrósar þeim leikmönnum landsliðsins sem spila á Íslandi. 

„Þetta er búið að vera erfitt og krefjandi ár. Ég held að þetta hafi verið erfitt fyrir þá leikmenn sem hafa þurft að taka pásur og hlé við æfingar. Hrós á þær að halda sér í formi og klára þetta svona. Þetta er búið að vera erfitt og krefjandi fyrir alla. Þetta er líka búið að vera erfitt fyrir mig. Ég vissi ekki hvort að ég væri að fara spila í bikarnum, deildinni né Meistaradeildinni. En við gerðum það besta úr aðstæðunum,“ segir Sara Björk.