Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Svartur dagur í réttarsögu en bjartur í mannréttindum

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að dómur yfirdeildar Mannréttindadómstóls í Evrópu marki svartan dag í réttarsögu Íslendinga, þetta sé hins vegar bjartur dagur þegar litið sé til réttar almennings. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, segir dóminn sögulegan áfellisdóm yfir þeim ósið Sjálfstæðismanna að skipa pólitískt í dómarastöður.

 

„Þetta er auðvitað svartur dagur í réttarsögu Íslands en að sama skapi bjartur dagur þegar kemur að mannréttindum,“ segir Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. Hún lýsir áhyggjum af því að ríkisstjórnin ætli ekki að axla ábyrgð í málinu. hún segir að Landsréttarmálið sé grundvallarmál sem varði stjórnskipun landsins, þrígreiningu ríkisvaldsins. „Fyrst um sinn held ég að það skipti öllu máli að ríkisstjórnin taki þetta alvarlega og fari ekki að benda út og suður varðandi ábyrgðina á þessu máli. Hún er á borði ríkisstjórnarinnar og hún verður að axla ábyrgð á þessum drætti á málinu að hafa farið alla leið með þetta mál.“

Helga Vala vísar til þess að stjórnarliðar vörðu Sigríði Á. Andersen þegar vantrauststillaga á hana var borin upp á þingi. „Stjórnarliðar komu upp einn af öðrum og sögðu mikilvægi ríkisstjórnarsamstarfsins meira en sjálfstæði og óhæði dómstólsins. Nú erum við komin á leiðarenda og þá þurfum við að fá skýr svör frá fulltrúum ríkisstjórnarinnar hvort að þau taki þetta alvarlega eða ekki.“ Hún segir að með áfrýjun til yfirdeildar Mannréttindadómstólsins hafi ríkisstjórnin ákveðið að það væri þess virði að fórna skattpeningum almennings til að verja einn einstakan ráðherra.

Sögulegur áfellisdómur

 

„Þessi niðurstaða er auðvitað sögulegur áfellisdómur yfir áratuga löngum ósið Sjálfstæðisflokksins að skipa pólitískt í stöðu dómara á Íslandi. Þetta er líka enn ein staðfestingin á þriggja ára kostnaðarsamri niðurlægingu stjórnvalda í þessu Landsréttarmáli,“ segir Þórhildur Sunna. Píratar og aðrir í stjórnarandstöðu hafi ítrekað varað við þessu en ríkisstjórnir Katrínar Jakobsdóttur og Bjarna Benediktssonar hafi valið að fara þessa leið.

„Það fyrsta sem við höfum kallað eftir hjá Pírötum er að þau komi með plan um hvernig þau ætli sér að bregðast við þeim ákurum sem finna má í dómi Mannréttindadómstólsins og kynni það fyrir þinginu sem fyrst,“ segir Þórhildur Sunna. Hún segir að þingið þurfi einnig að horfa í eigin rann, hvernig það hafi brugðist eftirlitshlutverki sínu með framkvæmdavaldinu.

Ættu ekki að gera MDE tortryggilegan

Þórhildur Sunna varar við því að Sjálfstæðismenn reyni að gera Mannréttindadómstólinn tortryggilegan til að verja Sigríði, líkt og þeir hafi gert eftir dóminn í fyrra. Sigríður hafi sjálf byrjað á slíku í dag. Hún sagði í hádegisfréttum að þetta væri pólitískt at og að Mannréttindadómstóllinn hefði sýnt Alþingi óvirðingu í dómi sínum. Þórhildur segir að slík umræða væri óásættanleg. „Við eigum gríðarlega miklar réttarframfarir undir Mannréttindadómstólnum. Þetta er einungis leið til að bjarga æru Sigríðar Á. Andersen, hefur ekkert með málsmeðferð þessa dómstóls að gera og er óásættanleg orðræða í lýðræðisríki.“