Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Staðfestir áfellisdóm yfir vinnubrögðum ráðherra

Mannréttindadómstóll Evrópu. - Mynd: EPA-EFE / EPA
Yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu staðfestir áfellisdóm Hæstaréttar yfir vinnubrögðum fyrrverandi dómsmálaráðherra. Þetta er mat lagaprófessors. Dómurinn virðist eiga að vera fordæmisgefandi fyrir önnur Evrópuríki, til að mynda Póllandi, Ungverjaland og Tyrkland. Landsréttardómararnir fjórir sem ráðherra skipaði á sínum tíma hafi ekki verið rétt skipaðir.

Yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu virðist hafa skapað sér nýja reglu með dóminum í dag. ­Þetta er mat Gunnars Þórs Péturssonar, lagaprófessors við Háskólann í Reykjavík. Hann segir að stjórnvöld verði að bregðast við dómnum. Landsréttardómararnir fjórir hafi ekki verið rétt skipaðir.

„Mér sýnist að hérna sé dómstóllinn að koma með nýja vísireglu um hvernig á að taka á málum af þessum toga. Ég held að við verðum að horfa til þess sem er að gerast í öðrum löndum Evrópu, Póllandi, Ungverjalandi og Tyrklandi. Ég held að þessi dómur verði fordæmisgefandi til framtíðar. Hérna er að mínum dómi skýrari nálgun heldur en var í fyrri dómi sem hérna var til skoðunar og í rauninni að ákveðnu leyti nýjar forsendur þó svo að niðurstaðan sé sú sama,“ segir Gunnar Þór. 

Finnst þér þessi dómur vera einhver áfellisdómur yfir vinnubrögðum dómsmálaráðherra fyrrverandi?

„Ja, það sem er gert hér er að það er byggt að miklu leyti á mati Hæstaréttar á því ferli. Það er alveg skýrt að það er áfellisdómur yfir þeim vinnubrögðum,“ segir Gunnar Þór.

Þú telur að þessi niðurstaða núna verði fordæmisgefandi fyrir önnur mál?

„Já, nú ætla að leyfa mér að hafa fyrirvara að því leyti að þetta eru 155 blaðsíður og stutt síðan dómur féll. En mitt fyrsta mat er það að hérna ætli dómstóllinn sér að skapa nýja reglu, nýja aðferðafræði um hvernig þetta er metið. Hérna er verið að skoða sérstaklega þetta hugtak „established by law“ sem er mjög mikilvægt þegar um er að ræða skipan dómara. Ekki síst þegar nýr dómstóll er skipaður í heild eins og í þessu tilviki,“ segir Gunnar Þór.

Hvað þurfa þá íslensk stjórnvöld að gera núna?

„Það sýnist mér nokkuð ljóst að þetta varðar þessa fjóra dómara sem málið snýst um. Ég get ekki séð annað en að þeir dómarar hafi ekki verið réttilega skipaðir. Það þarf að bregðast við því,“ segir Gunnar Þór.