Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Sigríður segir dóminn pólitískt at og skilaboða dóm

01.12.2020 - 12:44
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Sigríður Á. Andersen fyrrverandi dómsmálaráðherra segir Mannréttindadómstólsmálið vera pólitískt at. Það að ekki þurfi að endurupptaka öll sambærileg mál sýni að þetta sé skiliaboða dómur fremur en lögfræðilegur alvarleiki.

Sigríður segir að  niðurstaðan hafi ekki komið á óvart, þetta sé pólitískt at enda hafi hún sagt  það við flutning málsins í febrúar, þrátt fyrir frábæra vinnu lögmanna íslenska ríkisins. Það sé vegna þess að þetta sé ekki hefðbundinn dómstóll og íslenski dómarinn við réttinn hafi verið að endurskoða fyrri úrlausn.

„Ég get ítrekað það sem ég hef áður sagt um það sem mér hefur fundist um þessa sending frá Strassbourg, að þetta sé pólitískt at og ég sannfærðist nú enn frekar um það þegar ég les þessa niðurstöðu“, segir Sigríður.

Hún segir dómstólinn hafa undanfarin ár verið að útvíkka mannréttindasáttmálann og túlka með skapandi hætti í samræmi við tíðarandann, sem sé ekki það sem þátttökuþjóðirnar ætluðu. Hún segir dóminn sýna Alþingi óvirðingu í dómi sínum. Sigríður  segir athyglisvert að niðurstaða dómsins sé að brotið hafi verið á manni, en ekki ástæða til að hann fái bætur. Það sé sérstakt.

„Hitt er svo það, að það er sérstaklega tekið fram í þessari niðurstöðu, sem ekki var í undirrétti,  að þessi niðurstaða eigi ekki að vera túlkuð þannig að hún leggi skyldur á íslenska ríkið til þess að endurupptaka öll sambærileg mál. Þetta finnst mér nú einmitt benda til þess að þetta sé svona meiri einhvers konar skilaboða niðurstaða fremur en að lögfræðilegur alvarleiki liggi að baki.“