Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Segir af sér og viðurkennir þátttöku í kynsvalli

01.12.2020 - 16:06
Mynd með færslu
 Mynd: Daina Le Lardic - Evrópusambandið
Ungverski Evrópuþingmaðurinn József Szájer hefur sagt af sér embætti og viðurkennt að hafa tekið þátt í kynsvalli með um 20 karlmönnum í Brussel á föstudaginn. Hann er samflokksmaður Victor Orbans forsætisráðherra Ungverjalands í Fidesz.

Szájer greindi frá afsögn sinni á sunnudag og sagði að um 30 ára þátttaka stjórnmálum hefði tekið sinn toll og lagst þungt á hann. „Þeir sem eru á vígvellinum verða að vera reiðubúnir til að berjast,“ sagði hann meðal annars.

Á föstudaginn hafði lögregla í höfuðborg Belgíu afskipti af gleðskap í íbúð í miðborg Brussel þar sem borist höfðu ábendingar um brot á sóttvarnarreglum vegna COVID-19. Þar voru staddir um 20 fáklæddir karlmenn og samkvæmt belgískum fjölmiðlum reyndi þingmaðurinn að flýja út um glugga en slasaðist við flóttatilraunina og var handtekinn. 

Í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í dag viðurkenndi Szájer að hafa verið í samkvæminu. Hann þvertók fyrir að hafa notað vímuefni sem fundust í íbúðinni og segist hafa boðist til að taka próf um slíkt en lögregla ekki orðið við því.

Fidesz-flokkur Szájer og Orban hefur gengið hart fram gegn hinsegin fólki undanfarin ár að sögn mannréttindasamtaka. Þingmaðurinn er einn höfunda umdeildrar stjórnarskrár Ungverjalands sem takmarkaði réttindi hinsegin fólks. Nýlega lagði ríkisstjórn Orbans fram lög um bann við ættleiðingum samkynja para.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV