Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Rannsókn lögreglu á máli skipverjanna á togaranum lokið

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Rannsókn lögreglunnar á Vestfjörðum á hópsýkingu um borð í togaranum Júlíusi Geirmundssyni er nú lokið. Karl Ingi Vilbergsson, lögreglustjóri segir að á næstu dögum verði ákveðið hvort kæra verði gefin út eða eða málið fellt niður. Lögregla kynnir fyrst málsaðilum niðurstöður og greinir svo opinberlega frá þeim.

22 af 25 skipverjum togarans smituðust af COVID-19 á sjó í október, en skipstjóri sigldi ekki í land til sýnatöku fyrr en skipverjar höfðu flestir veikst og sýnt einkenni í hátt í þrjár vikur. Fyrsti skipverjinn veiktist strax á fyrstu dögum veiðiferðar og samkvæmt því sem kom fram við skýrslutökur í sjóprófi í síðustu viku veiktust flestir í áhöfninni innan við viku eftir að haldið var til sjós.

Skipstjóri hringdi í umdæmislækni sóttvarna á Vestfjörðum þegar fyrsti maðurinn fór að sýna einkenni. Læknir sagði skipstjóra þá að halda ætti til lands í sýnatöku, þar sem ómögulegt sé að greina í gegnum síma hvort um COVID væri að ræða. Togarinn fór þó ekki til lands og læknirinn heyrði ekki aftur af stöðunni innanborðs fyrr en tæpum þremur vikum seinna, eftir að flestir áhafnarmeðlimir höfðu veikst. 

Við fyrstu sýnatöku greindust 19 skipverjar með veiruna. Við frekari sýnatöku og mótefnamælingar kom þá í ljós að allir höfðu sýkst af veirunni nema þrír.