Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Opna vonandi fyrir umsóknir um lokunarstyrki í vikunni

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Skatturinn stefnir á að opna aftur fyrir umsóknir um lokunarstyrki í þessari viku. Tæpir tveir mánuðir eru síðan fjöldi rekstraraðila þurfti að hætta starfsemi og og forsætisráðherra segir að stjórnvöld hafi vonast til þess að opnað yrði fyrir umsóknir fjárstuðning vegna lokana um mánaðamótin.

Ríkisstjórnin tilkynnti þann 9. október að úrræði frá því í vor, um fjárstuðning til minni rekstraraðila sem hefði verið gert að hætta starfsemi sökum samkomutakmarkana, yrði framlengt. Lögin voru samþykkt á Alþingi þann 5. nóvember og gilda um lokunartímabil eins og þau eru ákveðin frá og með 18. september.

Höfðu stefnt á mánaðamótin

Nú eru tæplega tveir mánuðir síðan fjöldi rekstraraðila þurfti að hætta starfsemi og loka. Afgreiðsla umsókna er í höndum Skattsins og fyrirtæki bíða þess að geta sótt um. 

„Það stendur nú til bóta og við höfðum væntingar til þess að það myndi hrökkva af stað um mánaðamót. Það er unnið að þessu hörðum höndum hjá Skattinum bæði hvað varðar lokunarstyrki og aðra styrki sem við höfum verið að samþykkja,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við fréttastofu. 

Aðspurð hvort stuðningurinn sé ekki fullseint á ferðinni segir Katrín að Alþingi hafi þurft að fjalla um lagafrumvarpið um lokunarstyrki. „Þannig að það voru væntingar um það að þetta lægi fyrir núna um mánaðamótin en ég get fullyrt að það er unnið að því hörðum höndum að þetta hrökkvi í gang,“ segir hún. 

Biðin hefur mest áhrif á minnstu fyrirtækin

Jakob Einar Jakobsson, fulltrúi veitingamanna í Samtökum atvinnulífsins, sagði í Sjónvarpsfréttum í gær að biðin eftir stuðningi hefði mest áhrif á minnstu fyrirtækin.

„Þetta eru nú ekki það háar upphæðir en, vissulega, það eru mánaðamót og ég veit að margir eiga í erfiðleikum með þau núna,“ sagði hann. 

Vonast til að opna fyrir umsóknir í vikunni

Á vef Skattsins segir að umsókn um nýju lokunarstyrkina sé ekki tilbúin og að sérstaklega verði auglýst þegar unnt verði að taka á móti umsóknum. Þær þurfi að berast eigi síðar en þremur mánuðum eftir að lokunartímabili lýkur. Samkvæmt svörum frá Skattinum er nú vonast til að opna fyrir umsóknir í þessari viku. 

Lokunarstyrkir standa til boða fyrir þá rekstraraðila sem hefur verið gert að loka eða stöðva starfsemi samkvæmt ákvörðun heilbrigðisráðherra og eru hluti af efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar til að sporna gegn áhrifum heimsfaraldursins. Þetta á til dæmis við um hárgreiðslustofur, krár, líkamsræktarstöðvar, skemmtistaði, spilasali, snyrtistofur, húðflúrstofur, söfn, og sundlaugar. Styrkirnir voru fyrst veittir í fyrstu bylgju farsóttarinnar. Framhaldslokunarstyrkirnir eiga ekki aðeins að miðast lokanir vegna takmarkana sóttvarnaryfirvalda sem þegar hafa komið til framkvæmda heldur taka þeir einnig til frekari takmarkana sem kunna að koma til síðar.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV