Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Óbreyttar sóttvarnaráðstafanir til 9. desember

01.12.2020 - 11:40
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að framlengja gildandi reglugerðir um takmarkanir á samkomum og skólastarfi fram til 9. desember næstkomandi. Ákvörðunin er í samræmi við tillögu Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis.

Sóttvarnalæknir hafði áður gert ráð fyrir að hægt yrði að ráðast í varfærnar tilslakanir á gildandi samkomutakmörkunum 2. desember og sendi ráðherra minnisblað með tillögum þess efnis þann 25. nóvember. Hann áskildi sér þó rétt til að breyta tillögunum og eftir að smitum tók að fjölga hratt í síðustu viku sendi sóttvarnalæknir nýjar tillögur til ráðherra.

Þegar í stað hefst endurskoðun sóttvarnaráðstafana og stjórnvöld skoða sérstaklega hvort tilefni sé til að ráðast í tilslakanir á landsbyggðinni. Það væri í samræmi við hugleiðingar sóttvarnalæknis í minnisblaði sem hann sendi heilbrigðisráðherra í gær. 

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV